Haukur Helgi Pálsson er mættur aftur í leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik eftir langa fjarveru en Ísland mætir Ítalíu í tveimur leikjum í B-riðli undankeppni EM 2025 á næstu dögum.
Liðin mætast fyrst í Laugardalshöll á morgun og svo í Reggio Emilia á Ítalíu þann 25. nóvember, en Ísland er í þriðja sæti riðilsins með tvö stig eftir fyrstu tvo leiki sína í febrúar.
Haukur Helgi, sem er 32 ára gamall, er einn af reynslumestu leikmönnum liðsins en alls á hann að baki 74 A-landsleiki.
„Þessi leikur leggst virkilega vel í mig og þetta verður alvöru prófraun fyrir okkur,“ sagði Haukur Helgi í samtali við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll.
Haukur Helgi hefur verið óheppinn með meiðsli á undanförnum árum en hann gekkst undir aðgerð á ökkla fyrir þremur árum og er ennþá að glíma við eftirköst aðgerðarinnar. Þá lenti hann í bílslysi á Reykjanesbrautinni á síðustu leiktíð sem hélt honum frá keppni í nokkurn tíma.
„Ég er búinn að vera að takast á við eftirköstin eftir þessa ökklaaðgerð undanfarin ár og bataferlið var miklu lengra en ég átti sjálfur von á. Hugurinn hefur alveg reikað, í raun frá því að maður kom heim eftir aðgerðina. Ég hugsaði með mér hvort þetta ætlaði aldrei að stoppa og sú hugsun læddist að mér eftir bílslysið líka. Það er samt ekkert annað í stöðunni en að ýta þessum hugsunum frá sér og halda áfram. Svona hlutir gerast, koma bæði fyrir mig og aðra, og bílslysið hefði klárlega getað endað mun verr.“
Ítarlegt viðtal við Hauk Helga Pálsson má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.