Fyrri hálfleikurinn felldi Ísland

Ítalir eru ósigraðir á toppi undanriðils Evrópumóts karla í körfuknattleik eftir sigur á Íslandi, 91:75, í þriðju umferðinni af sex í Laugardalshöllinni í kvöld.

Ítalir eru með 6 stig, Tyrkir 4 stig, Íslendingar 2 og Ungverjar ekkert en Tyrkir unnu Ungverja mjög örugglega fyrr í kvöld. Þrjú efstu liðin komast á EM 2025 og staða íslenska liðsins er áfram vænleg en Ísland mætir Ítalíu aftur á mánudagskvöld í Reggio Emilia og síðan Ungverjalandi á útivelli og Tyrklandi á heimavelli í lokaumferðunum í febrúar.

Ísland byrjaði vel með Ægi Þór Steinarsson í lykilhlutverki og staðan var 12:8 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. En þá hrökk allt í baklás, Ítalir röðuðu inn körfum og gerðu hvorki fleiri né færri en nítján stig í röð það sem eftir var leikhlutans.

Ægir Þór Steinarsson sækir að körfu Ítala.
Ægir Þór Steinarsson sækir að körfu Ítala. mbl.is/Eyþór


Þeir voru skyndilega komnir með afar vænlegt forskot, 27:12, og ekki bætti úr skák að Ægir var kominn með tvær villur eftir aðeins átta mínútur. Á meðan spiluðu Ítalir hratt og nánast áreynslulaust og fengu ekki á sig villu fyrr en á lokamínútu leikhlutans. Íslenska liðið skoraði sem sagt ekki stig síðustu fjórar mínúturnar.

Tryggvi Snær Hlinason batt endi á stigaleysið með vítaskoti í byrjun annars leikhluta en það dugði skammt. Það gekk hreinlega allt á afturfótunum hjá íslenska liðinu í sókn sem vörn og um miðjan annan leikhluta stóð 36:13 og Ítalía hafði því skorað 28 stig gegn einu á tíu mínútna kafla. Þá var Jón Axel Guðmundsson kominn í villuvandræði með þrjár villur um sama leyti.

Jón Axel Guðmundsson brýtur sér leið að körfu Ítala í …
Jón Axel Guðmundsson brýtur sér leið að körfu Ítala í kvöld. mbl.is/Eyþór


Ítalirnir léku frábæran varnarleik og stöðvuðu bæði íslensku bakverðina og sáu til þess að Tryggvi hefði ekki úr neinu að moða undir körfunni. Íslenska liðið skoraði ekki úr opnum leik, bara úr vítaskotum, á þrettán mínútna kafla eða þar til Ægir braut þann ís þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir af fyrri hálfleiknum, sem vafalítið var versti hálfleikur landsliðsins um árabil.

Staðan að honum loknum var 49:25, Ítölum í hag, og úrslitin virtust nánast ráðin.

En það fór þó aldrei svo að íslensku landsliðsmennirnir svöruðu fyrir sig eftir þennan hörmulega fyrri hálfleik. Tryggvi hóf þann síðari á troðslu og Ísland skoraði fyrstu fimmtán stig hálfleiksins eftir kraftmikla rispu og allt annan leik í vörn og sókn.

Staðan var skyndilega orðin 49:40. Það var eins og allt annað lið væri komið inn á völlinn og áhorfendur í Höllinni voru vel með á nótunum.

Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. mbl.is/Eyþór


En það er meira en að segja það að vinna upp 24 stiga forystu í körfuboltaleik þó vissulega séu til dæmi um slíkt. Ítalir voru slegnir en náðu vopnum sínum aftur að nokkru leyti eftir þennan hvirfilbyl sem þeir lentu í á upphafsmínútum hálfleiksins og munurinn sveiflaðist á milli ellefu og átján stiga.

Kristinn Pálsson átti lokaorðið í þriðja leikhluta með glæsilegum þristi og staðan 65:54. Langt frá því að vera vonlaus staða og magnað að íslenska liðið skyldi ná að búa sér til sigurvon með frábærri frammistöðu í leikhlutanum.

Leikmenn Íslands taka sér stöðu er þjóðsöngurinn er leikinn í …
Leikmenn Íslands taka sér stöðu er þjóðsöngurinn er leikinn í kvöld. mbl.is/Eyþór


Báðum liðum gekk illa að skora framan af fjórða leikhluta en Ítölum þó aðeins betur og þeir komust í 71:56 eftir fjórar mínútur. Íslenska liðinu tókst ekki að koma muninum aftur niður fyrir tíu stigin þrátt fyrir hetjulega baráttu. Minnstu munaði 71:59. Forskotið mikla sem Ítalir náðu í fyrri hálfleik var einfaldlega of stór biti og þeir sigldu sigrinum örugglega heim á lokamínútunum þar sem þeir juku muninn á ný.

Stig Íslands: Elvar Friðriksson 15, Tryggvi Snær Hlinason 15, Jón Axel Guðmundsson 14, Ægir Þór Steinarsson 9, Orri Gunnarsson 7, Kristinn Pálsson 5, Haukur Pálsson 3, Hilmar Smári Henningsson 3.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Haukar 29:33 Valur opna
60. mín. Leik lokið Valsmenn sigla þessu í höfn með góðum endaspretti.

Leiklýsing

Ísland 68:95 Ítalía opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert