Við áttum að gera meira af þessu

Kristinn Pálsson skoraði 5 stig í leiknum í kvöld.
Kristinn Pálsson skoraði 5 stig í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við sáum það kannski í þriðja leikhluta að við getum keppt við þessar stóru þjóðir." var það fyrsta sem Kristinn Pálsson landsliðsmaður Íslands í körfubolta sagði eftir stórt tap gegn Ítalíu kvöld, 95:71, í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöllinni.

„Það er ekki 24 stiga munur milli þessara þjóða og við þurfum að gera meira af því sem við gerðum í þriðja leikhluta að taka varnarfráköstin og keyra í bakið á þeim," sagði Kristinn við mbl.is eftir leikinn.

Þið byrjuðuð leikinn vel og náðuð forskoti áður en það kom algjört stopp í stigaskorun. Hvað klikkaði í ykkar leik þar?

„Við gáfum þeim alltof mikið af sóknarfráköstum og á sama tíma náðu þeir að refsa okkur með skotum sem við svo sem vildum að þeir tækju og þegar svona þjóð nær að skora úr slíkum færum þá er erfitt að eiga við þá."

Í seinni hálfleik nái þið að minnka muninn niður í 9 stig eftir að hafa verið 25 stigum undir. Afhverju var ekki hægt að spila af þessari getu í fyrri hálfleik?

„Það eru margir þættir í því. Á sama tíma og þeir koma kannski smá saddir út í seinni hálfleik þá mætum við dýrvitlausir. Við náðum fráköstum og settum þá í erfið færi og keyrðum síðan í bakið á þeim sem er okkar einkenni þegar við spilum vel. Þetta tókst vel og þeir áttu í veseni með svör þar og við áttum bara að gera meira af þessu."

Næsti leikur er aftur gegn Ítölum á útivelli á mánudag. Hvað þarf til að stríða þeim aðeins meira en þið gerðuð í kvöld?

„Það er bara gamla góða íslenska geðveikin myndi ég segja. Það er það sem skiptir máli í þessu stundum. Þetta fjaraði aðeins út hjá okkur í kvöld en við þurfum að halda þessu í 40 mínútur ef við ætlum að vinna þessar stóru þjóðir og við ætlum að gera allt sem við getum til að vinna leikinn á mánudag," sagði Kristinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert