Kristinn Pálsson var magnaður í glæstum sigri Íslands á Ítalíu, 81:74, í undanriðli-B fyrir Evrópumótið í körfubolta í Reggio Emilia á Ítalíu í kvöld.
Kristinn skoraði 22 stig og tók fjögur fráköst. Sigurinn er ansi stór þar sem íslenska liðið er nú skrefi nær EM.
„Þetta er mjög, mjög stórt fyrir mig. Ótrúlegt kvöld, við vorum frábærir. Vörnin mögnuð og við hittum vel. Við náðum að ýta í bakið á þeim og sýndum að við eigum heima á þessu stigi,“ sagði Kristinn í viðtali á RÚV.
Ísland tapaði fyrri leiknum gegn Ítalíu síðastliðið föstudagskvöld með 24 stiga mun. Þrátt fyrir það hafði íslenska liðið mikla trú.
„Við höfðum alltaf trú á því að við gætum unnið, töluðum um það eftir síðasta leik. Sama hvaða lið þeir eru að koma með trúum við alltaf á okkur. Mér fannst við berjast ansi vel sem gaf okkur sigurinn í kvöld,“ bætti Kristinn Pálsson við í viðtalinu á RÚV.