Jimmy Butler minnti á sig í sigri Miami Heat á Dallas Mavericks, 123:118, í bandarísku NBA-deildinni í körfubolta í Miami-borg nótt.
Butler skoraði 33 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar en þetta var sjöundi sigur Miami í 14 leikjum.
Kyrie Irving skoraði mest fyrir Dallas eða 27 stig en stjarna liðsins Luka Doncic var fjarverandi.
Cleveland Cavaliers hefur unnið 17 af fyrstu 18 leikjum sínum í deildinni en liðið hafði betur gegn Toronto Raptors, 122:108, í Cleveland í nótt.
Jarrett Allen fór mikinn en hann skoraði 23 stig, tók 13 fráköst og gaf tvær stoðsendingar fyrir Cleveland.
Boston Celtics hafði þá naumlega betur gegn Minnesota Timberwolves, 107:105, í Boston.
Jayson Tatum skoraði 26 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í liði Boston en hjá Minnesota skoraði Anthony Edwards 28 stig, tók níu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.
Önnur úrslit:
Indiana Pacers - Washington Wizards 115:103
Philadelphia 76ers - Los Angeles Clippers 99:125
Sacramento Kings - Brooklyn Nets 103:108