Enski körfuknattleiksmaðurinn Dwayne Lautier-Ogunleye verður ekki með Njarðvík næstu vikurnar eftir að hann handarbrotnaði í leik gegn ÍR á dögunum. Hann er farinn til London í aðgerð vegna meiðslanna.
„Dwayne fær högg á höndina í fyrri hálfleiknum gegn ÍR. Það kom síðan í ljós nokkuð leiðinlegt brot og þess vegna er hann í London í aðgerð.
Læknarnir úti hafa sagt að hann verði frá í 8-10 vikur en hann er væntanlegur aftur til okkar á næstu dögum og verður með liðinu í baráttunni sem fram undan er, þótt hann reimi ekki á sig skóna strax,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson í samtali við mbl.is.
Englendingurinn er einn allra besti leikmaður Njarðvíkur og því áfall að vera án hans í að minnsta kosti tvo mánuði.
„Auðvitað er það þungt högg að missa púsl eins Dwayne í svona langan tíma en strákarnir hafa staðið með miklum sóma í hans fjarveru og við munum halda áfram að mæta í alla leiki til þess að sækja sigur.
Auðvitað væri best fyrir mig sem þjálfara að vera með alla klára og þróa liðið, en það koma hindranir á öllum tímabilum og þetta er ein slík. Við notum þetta ekki sem afsökun og nú höldum við áfram í næsta leik með tólf Njarðvíkinga í búningi,“ sagði hann.