Tryggvi fremstur í flokki

Tryggvi Snær Hlinason í fyrri leiknum gegn Ítalíu.
Tryggvi Snær Hlinason í fyrri leiknum gegn Ítalíu. Eyþór Árnason

Tryggvi Snær Hlinason er annar tveggja leikmanna sem hafa varið langflest skot í leikjum undankeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik.

Tryggvi hefur varið tíu skot í fjórum leikjum Íslands, tvö þeirra með tilþrifum í sigrinum magnaða á Ítölum í Reggio Emilia í gærkvöld.

Einn annar leikmaður, Michael Fusek frá Slóvakíu, hefur náð að verja tíu skot, en næstu menn á eftir þeim eru með fimm og fjögur varin skot.

Tryggvi er líka með efstu mönnum í fráköstum en þar er hann í öðru sæti með 37 fráköst í fjórum leikjum, og í fimmta sæti þegar farið er eftir meðaltali, sem eru 9,3 fráköst í leik hjá Tryggva.

Þá er Tryggvi með næstflestar mínútur inni á vellinum af leikmönnum undankeppninnar en hann hefur verið inn á í 142 mínútur af 160 hjá íslenska liðinu. Aðeins Vladimir Brodziansky frá Slóvakíu hefur gert betur en hann hefur aldrei farið af velli á 160 mínútum hjá sínu liði.

Kristinn Pálsson er kominn í fremstu röð í þriggja stiga körfum eftir sýninguna í Reggio Emilia þar sem hann skoraði fimm sinnum úr sex skotum fyrir utan þriggja stiga línuna. Kristinn er annar tveggja leikmanna sem hafa skorað flestar þriggja stiga körfur, eða 11 talsins.

Elvar Már Friðriksson er í sjötta sæti yfir þá sem hafa átt flestar stoðsendingar en hann er með 25 slíkar í fjórum leikjum Íslands og er í áttunda sæti ef farið er eftir hlutfalli leikja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert