Tindastóll breytir til

Israel Martin er þjálfari kvennaliðs Tindastóls.
Israel Martin er þjálfari kvennaliðs Tindastóls. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvennalið Tindastóls í körfubolta gerir breytingu á liði sínu en Frakkinn Melissa Diawkana hefur kvatt liðið. Í hennar stað kemur hin lettneska Ilze Jakosone. 

Ilze er mætt til landsins og verður klár fyrir næsta leik liðsins gegn Haukum á Sauðárkróki. Ilze lék síðast hjá Felix Perez Cardozo í Paragvæ en hún hefur einnig leikið í Mexíkó, Tyrklandi, Ísrael og Þýskalandi sem og í heimalandinu. Ilze er þrítug og lék með landsliði Lettlands í lokakeppni EM árið 2017.

Israel Martin þjálfari liðsins er ánægður með viðbótina.

„Ilze er lettneskur leikstjórnandi með landsliðsreynslu. Hennar helstu styrkleikar eru að koma skipulagi á bæði varnar- og sóknarleik og koma öllum leikmönnum í takt við leikinn. 

Hún er fjölhæf í sókn, getur skotið, sótt að körfunni og hefur gott auga fyrir sendingum,“ er haft eftir Israel á Facebook-síðu Tindastóls. 

Tindastóll er í fimmta sæti úrvalsdeildar kvenna í körfubolta með áttta stig eftir jafnmarga leiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka