Hlynur Bæringsson, körfuboltamaðurinn reyndi úr Stjörnunni, er orðinn næstleikjahæsti leikmaður sögunnar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik.
Hlynur, sem er orðinn 42 ára gamall, lék sinn 410. leik í deildinni þegar Stjarnan burstaði Þór úr Þorlákshöfn í Garðabæ á laugardaginn, 124:82.
Þetta kemur fram í samantekt „Stattnördanna“ á Facebook.
Keflvíkingurinn Guðjón Skúlason var í öðru sætinu yfir þá leikjahæstu með 409 leiki.
Allt bendir til þess að Hlynur slái leikjametið í vetur. Marel Guðlaugsson á leikjametið sem er 416 leikir en hann lék með Grindavík, Haukum og KR á árunum 1987 til 2012.
Hlynur lék fyrst 15 ára gamall í deildinni með Skallagrími árið 1997 og þrátt fyrir leikjafjöldann á Íslandi lék hann alls í sjö tímabil sem atvinnumaður erlendis, með Aris Leeuwarden í Hollandi og Sundsvall Dragons í Svíþjóð.