Grindavík hafði betur gegn Íslandsmeisturum Vals, 97:90, í 10. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í kvöld.
Grindavík er nú með 12 stig í þriðja sæti á meðan Valur heldur kyrru fyrir í 11. og næstneðsta sæti, fallsæti, með sex stig.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Grindavík byrjaði betur en Valur var þremur stigum yfir, 48:51, í hálfleik.
Grindvíkingar hófu síðari hálfleikinn af gífurlegum krafti og voru komnir með 13 stiga forystu, 79:66, að loknum þriðja leikhluta.
Heimamenn í Grindavík virtust ætla að sigla þægilegum sigri í höfn áður en Valsmenn gerðu verulegt áhlaup þegar líða tók á fjórða leikhluta.
Gestirnir af Hlíðarenda náðu að minnka muninn í þrjú stig, 90:87, þegar tæp mínúta var eftir og aftur í 93:90 þegar 19 sekúndur lifðu leiks.
Nær komst Valur hins vegar ekki og Grindavík vann að lokum sjö stiga sigur.
Devon Tomas fór á kostum hjá Grindavík er hann skoraði 31 stig, tók sjö fráköst, gaf níu stoðsendingar og stal þremur boltum. DeAndre Kane bætti við 19 stigum og níu fráköstum.
Hjá Val var Sherif Ali Kenney stigahæstur með 21 stig. Taiwo Badmus var skammt undan með 19 stig og fimm fráköst.
Smárinn, Bónus deild karla, 13. desember 2024.
Gangur leiksins:: 11:5, 16:18, 25:20, 27:26, 37:29, 40:37, 43:42, 48:51, 54:56, 62:59, 72:60, 79:66, 82:71, 87:75, 89:81, 97:90.
Grindavík: Devon Tomas 31/7 fráköst/9 stoðsendingar, Deandre Donte Kane 19/9 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 15, Ólafur Ólafsson 13/7 fráköst, Valur Orri Valsson 7, Daniel Mortensen 6/10 fráköst, Jordan Aboudou 6/8 fráköst.
Fráköst: 29 í vörn, 14 í sókn.
Valur: Sherif Ali Kenney 21, Taiwo Hassan Badmus 19/5 fráköst, Adam Ramstedt 14/7 fráköst, Hjálmar Stefánsson 13, Frank Aron Booker 12/10 fráköst, Kristinn Pálsson 6/6 fráköst, Kári Jónsson 5.
Fráköst: 28 í vörn, 7 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Gunnlaugur Briem, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.
Áhorfendur: 261