Sé þetta lið verða Íslandsmeistara aftur

Friðrik Ingi Rúnarsson ræðir við sínar konur.
Friðrik Ingi Rúnarsson ræðir við sínar konur. mbl.is/Arnþór

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta, var að vonum ekki ánægður með 10 stiga tap í nágrannaslag gegn Njarðvík, 98:88, í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Spurður út í ástæður tapsins sagði Friðrik þetta.

Eftir leikinn er Keflavík í þriðja sæti með 14 stig, tveimur stigum frá toppliðum Njarðvíkur og Hauka.

Þegar á reyndi þá voru það ákvörðunartökur og leikstjórnun sem var ekki eins og ég vildi hafa það.

„Við áttum fínan kafla í öðrum leikhluta og gerðum mjög vel. Þar fannst mér við hafa tækifæri til að byggja enn meira ofan á þann góða kafla en í staðinn misstum við fókus og fjarlægðumst það sem við vorum að gera vel þegar við vorum að ná forskotinu.

Við fórum illa að ráði okkar þar, því þegar þú ert á útivelli og færð tækifæri til að byggja upp forskot þá verður þú að grípa það, en í staðinn nær Njarðvík að laga stöðuna og minnka okkar forskot niður í eitt stig fyrir hálfleik.

Síðan erum við bara að elta restina af leiknum og náum að minnka minnst í eitt stig, en þá var vindurinn búinn í þessu hjá okkur.“

Vill hrósa leikmönnunum

Keflavík tekst að minnka muninn niður í eitt stig í stöðunni 78:77 en þá er eins og slokkni á þínu liði sem tapar restinni af leiknum 20:11. Veistu hvað veldur því?

„Ég held að það hafi bara verið skortur á jafnvægi leiksins. Það er ekkert launungarmál að við erum með pólska landsliðskonu utan vallar sem bíður eftir leikheimild. Það er ástæða fyrir því að hún var fengin til liðsins og við erum búin að vera í vandræðum með leikstjórnendastöðuna.

Ég vil bara hrósa mínum leikmönnum fyrir að hafa aftur og aftur þurft að leysa hinar ýmsu leikstöður sem þær eru ekkert endilega vanar að gera og ég held að það hafi skilið á milli í kvöld. Oft og tíðum var bara leikflæðið ekki rétt sem er eðlilegt í ljósi stöðunnar þegar okkur vantar betri leikstjórn.“

Nú eru Keflavíkurkonur komnar í jólafrí. Hvernig sérðu seinni hlutann fyrir þér?

„Ég hef ekkert sérstaklega miklar áhyggjur af þessu Keflavíkurliði í seinni hlutanum. Ég sé þetta lið blanda sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn og ég sé þetta lið verða Íslandsmeistara aftur,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert