Janis Timma, landsliðsmaður Lettlands í körfuknattleik, er látinn aðeins 32 ára að aldri. Fannst hann látinn í gærmorgun fyrir utan hótel í Moskvu í Rússlandi.
Rússneski ríkismiðillinn TACC greinir frá því að útlit sé fyrir að Timma hafi fallið fyrir eigin hendi en opinber dánarorsök hefur þó ekki verið gefin út.
Lögregluyfirvöld í Moskvu ganga sömuleiðis út frá því að um sjálfsvíg hafi verið að ræða og telja ekkert glæpsamlegt hafa átt sér stað.
Timma kom víða við á ferlinum og var til að mynda valinn númer 60 af Memphis Grizzlies í nýliðavali NBA-deildarinnar árið 2013. Hann lék aldrei í deildinni en lék fyrir Orlando Magic í sumardeild NBA árið 2021 og varaliði félagsins, Osceola Magic, í G-deildinni tímabilið 2021-22.
Hann lék þá lengi vel í Rússlandi og heimalandinu en einnig með Baskonia á Spáni og Olympiacos í Grikklandi, en Timma spilaði með báðum þeim liðum í Euroleague.
Ef einstaklingar upplifa sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.