Thelma og Tryggvi valin best

Thelma Dís Ágústsdóttir og Tryggvi Snær Hlinason.
Thelma Dís Ágústsdóttir og Tryggvi Snær Hlinason. Ljósmynd/KKÍ

Thelma Dís Ágústsdóttir og Tryggvi Snær Hlinason hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2024 af KKÍ. Þetta er í 27. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998. 

 
Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og þjálfurum karla-og kvennalandsliðanna. Thelma og Tryggvi eru bæði að hljóta nafnbótina í fyrsta sinn. 
 
Val á körfuknattleikskonu ársins 2024: 

1. Thelma Dís Ágústsdóttir 

2. Danielle Rodriquez 

3. Sara Rún Hinriksdóttir 

Aðrar sem fengu atkvæði í stafrófsröð eru: Birna Valgerður Benónýsdóttir, Kolbrún María Ármannsdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir 

Thelma Dís Ágústsdóttir - Keflavík 

Thelma Dís kom heim úr námi árið 2023 hefur síðan leikið vel með Keflavík í Bónus-deildinni. Á árinu sem er að líða varð Keflavík deildar, bikar og Íslandsmeistari og var Thelma Dís burðarstólpi í því liði. Í lok tímabils var Thelma Dís valin í úrvalslið deildarinnar. Keflavík hefur farið ágætlega af stað í vetur og eru í efri hluta deildarinnar. Thelma Dís fer vel á stað og er með 15.2 stig, 4.6 fráköst og 3.9 stoðsendingar að meðaltali. 

Íslenska landsliðið lék tvo leiki á árinu og var Thelma lykilleikmaður þar. Í sigrinum gegn Rúmeníu átti hún stórleik og skoraði hún þar 21 stig. 

Danielle Rodriquez - BCF Elfic Fribourg 

Í lok árs 2023 fékk Danielle Íslenskan ríkisborgararétt en hún kom fyrst til Íslands árið 2016. Danielle átti gott ár með Grindavík en liðið fór í undanúrslit í bikarkeppni og Íslandsmóti. Í lok tímabils var Danielle svo valin í úrvalslið deildarinnar. Danielle skipti svo um félag og leikur nú með Fribourg sem situr í 1. sæti í efstu deild í Sviss ásamt því að hafa leikið í FIBA Eurocup. 

Danielle lék fyrstu landsleiki sína fyrir Ísland og átti stórbrotnaframmistöðu og stendur þar uppúr sigurkarfa hennar gegn Rúmeníu.

Sara Rún Hinriksdóttir - Keflavík 

Sara Rún kom heim frá Spáni í upphafi árs og gekk til liðs við uppeldisfélagið sitt Keflavík. Á árinu sem er að líða varð Keflavík deildar, bikar og Íslandsmeistari. Sara Rún átti stóran þátt í velgengni liðsins og var meðal annars valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. Sara Rún hefur á seinni hluta ársins átt við meiðsli að stríða og missti af meiri hlutanum af leiktíðinni. Það er þó gleðiefni að hún er mætt aftur og hefur tekið þátt í síðustu 3 leikjum Keflavíkur. 

Val á körfuknattleikskarli ársins 2024: 

1. Tryggvi Snær Hlinason 

2. Elvar Már Friðriksson 

3. Kristinn Pálsson 

Aðrir sem fengu atkvæði í starfrófsröð: Jón Axel Guðmundsson, Martin Hermannsson, Ægir Þór Steinarsson 

Tryggvi Snær Hlinason - Surne Bilbao Basket 

Tryggvi er á sínu öðru ári með Bilbao. Á síðustu leiktíð endaði liðið í 13. sæti efstu deildar Spánar þar sem Tryggvi var með 7,4 stig og 5,4 fráköst að meðaltali i leik. Einnig fór Tryggvi með Bilbao í undanúrslit í FIBA Eurocup, Tryggvi var þar með næst flest varin skot af öllum leikmönnum keppninnar. 

Á þessari leiktíð er Tryggvi að bæta við sig í tölfræði en hann er með tæp 10 stig og 6 fráköst að meðaltali. Bilbao er sem stendur í 14. sæti efstu deildar Spánar en eru efstir í sínum riðli í FIBA Eurocup. 

Tryggvi er lykilmaður í Íslenska landsliðinu sem er sem stendur í 3 sæti í sínum riðli, en það gefur sæti á lokamóti Evrópukeppninnar-EuroBasket. Tryggvi er framlags hæsti leikmaður Íslenska liðsins og er með næst flest varin skot af öllum leikmönnum keppninnar.  

Elvar Már Friðriksson - Maroussi B.C. 

Elvar hóf árið hjá PAOK í Grikklandi og fór liðið í 8 liða úrslit þar sem þeir féllu úr keppni gegn Panathinaikos. Einnig tók liðið þátt í Basketball Champions League þar sem þeir komust uppúr riðlinum sínum. Í sumar færði Elvar sig um set í Grikklandi og skipti yfir til Maroussi en þeir sitja nú í 11 sæti. Þeir eru svo komnir áfram í milliriðla í FIBA EuroCup. 

Elvar er búinn að standa sig gríðarlega vel með Íslenska landsliðinu í undankeppni fyrir evrópumótið þar sem hann hefur skilað 14.3 stigum og 6.3 stoðsendingum að meðaltali í leik. 

Kristinn Pálsson - Valur 

Kristinn varð bæði deildar og Íslandsmeistari með Val núna í Vor, Kristinn átti frábært ár hér heima í efstu deild og var kjörinn besti leikmaður úrvalsdeildar í kjölfarið. Kristinn er máttarstólpi hjá Vals liðinu í ár, sem situr sem stendur í 11. sæti Bónus deildarinnar. 

Kristinn er mikilvægur póstur í Íslenska landsliðinu og ber að minnast stórleiks hans núna í nóvember þar sem hann skoraði 22 stig í sigri á Ítalíu á útivelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert