Íslandsmeistararnir úr fallsæti eftir kærkominn sigur

Taiwo Badmus var stigahæstur hjá Val í kvöld.
Taiwo Badmus var stigahæstur hjá Val í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Vals unnu kærkominn sigur á Tindastóli, 89:80, í 11. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

Valur fór með sigrinum upp úr fallsæti og er nú í tíunda sæti með átta stig. Tindastóll heldur kyrru fyrir í öðru sæti með 16 stig, fjórum á eftir toppliði Stjörnunnar.

Eftir jafnræði í fyrsta leikhluta hertu heimamenn tökin í öðrum leikhluta og voru með 13 stiga forystu, 49:36, í hálfleik.

Valur hóf síðari hálfleikinn einnig af krafti og komst fljótt 18 stigum yfir, 54:36. Valsmenn þjörmuðu áfram að Stólunum og náðu brátt 23 stiga forystu, 62:39.

Gestirnir frá Sauðárkróki löguðu aðeins stöðuna en munurinn var 17 stig, 73:56, að loknum þriðja leikhluta.

Tindastóll hóf fjórða leikhluta af miklum krafti og minnkaði muninn fljótt í tíu stig, 75:65. Eftir að hafa minnkað muninn niður í níu stig í stöðunni 77:68, náðu Valsmenn hins vegar aftur vopnum sínum.

Með því að skora átta stig í röð var munurinn aftur orðinn 17 stig. Það reyndist of mikill munur fyrir Tindastól og sigldi Valur að lokum góðum níu stiga sigri í höfn.

Taiwo Badmus var stigahæstur í leiknum með 24 stig fyrir Val. Hann gaf auk þess fimm stoðsendingar.

Sigtryggur Arnar Björnsson var stigahæstur hjá Tindastóli með 23 stig og tvo stolna bolta.

Valur - Tindastóll 89:80

N1-höllin á Hlíðarenda, Bónus deild karla, 20. desember 2024.

Gangur leiksins:: 5:6, 7:15, 16:15, 18:20, 32:23, 37:26, 42:32, 49:36, 55:39, 64:41, 65:48, 73:56, 75:65, 81:68, 85:68, 89:80.

Valur: Taiwo Hassan Badmus 24/4 fráköst/5 stoðsendingar, Sherif Ali Kenney 15/7 fráköst, Adam Ramstedt 15/11 fráköst, Kristinn Pálsson 15/6 fráköst, Hjálmar Stefánsson 12/4 fráköst, Frank Aron Booker 8/6 fráköst.

Fráköst: 31 í vörn, 7 í sókn.

Tindastóll: Sigtryggur Arnar Björnsson 23, Adomas Drungilas 17/9 fráköst, Dedrick Deon Basile 14/8 fráköst/7 stoðsendingar, Davis Geks 12/4 fráköst, Ragnar Ágústsson 6, Pétur Rúnar Birgisson 5/4 fráköst/5 stoðsendingar, Hannes Ingi Másson 3.

Fráköst: 22 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Bjarki Þór Davíðsson, Jón Þór Eyþórsson.

Áhorfendur: 417

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert