Tók efsta sætið af annari Lakers-goðsögn

LeBron James á leið að körfu Sacramento þar sem Keegan …
LeBron James á leið að körfu Sacramento þar sem Keegan Murray reynir að stöðva hann. AFP/Ezra Shaw

LeBron James sló met í nótt þegar Los Angeles Lakers lagði Sacramento Kings að velli í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt, 113:100, frammi fyrir 18 þúsund áhorfendum í Sacramento.

LeBron lék í 34 mínútur af 48 og er þar með orðinn sá leikmaður í sögu NBA sem hefur spilað flestar mínútur í deildinni, eða samtals 57.471 mínútu. Hann fór fram úr sjálfri Lakers-goðsögninni Kareem Abdul-Jabbar sem lék í 57.446 mínútur í deildinni á sínum tíma.

LeBron skoraði 19 stig í leiknum, tók sex fráköst og átti sjö stoðsendingar. Austin Reaves skoraði 35 stig fyrir Lakers og Anthony Davis var með 21 stig og 20 fráköst. Lakers vann sinn þriðja sigur í fjórum leikjum.

Victor Wembanyama var í miklum ham og skoraði 42 stig fyrir San Antonio Spurs sem vann Atlanta Hawks 133:126.

Chicago Bulls vann góðan útisigur á Boston Celtics, 117:108. Zach LaVine skoraði 36 stig fyrir Chicago og Jayson Tatum 31 fyrir Boston.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 35 stig fyrir Oklahoma City Thunder sem vann Orlando Magis á útivelli, 105:99.

Memphis Grizzlies vann Golden State Warriors með hvorki meira né minna en 51 stigs mun, 144:93.

Úrslitin í nótt:

Washington - Charlotte 123:114
Orlando - Oklahoma City 99:105
Detroit - Utah 119:126
Toronto - Brooklyn 94:101
Boston - Chicago 108:117
San Antonio - Atlanta 133:126 - framlenging
Memphis - Golden State 144:93
Houston - New Orleans 133:113
Dallas - LA Clippers 95:118
Phoenix - Indiana 111:120
Minnesota - New York 107:133
Sacramento - LA Lakers 100:113
Portland - Denver 126:124

Oklahoma er efst í Vesturdeildinni með 21 sigra og 5 töp. Memphis er með 19/9 og Houston 18/9.

Cleveland er efst í Austurdeildinni með 23/4, Boston er með 21/6 og New York 17/10.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert