Reynslubolti úr NBA á Selfoss

Tony Wroten í leik með Philadelphia 76ers árið 2013.
Tony Wroten í leik með Philadelphia 76ers árið 2013. AFP

Körfuknattleiksdeild Selfoss hefur samið við Bandaríkjamanninn Tony Wroten um að leika með karlaliðinu í 1. deild út tímabilið. Wroten á að baki 151 leik í NBA-deildinni.

Hann er 31 árs bakvörður sem lék síðast með Urupan de Pando í efstu deild Úrúgvæ. Wroten var valinn númer 25 í fyrstu umferð nýliðavali NBA-deildarinnar árið 2012 af Memphis Grizzlies.

Þar hófst ferill hans í NBA-deildinni en Wroten skipti svo yfir til Philadelphia 76ers árið 2013, þar sem hann lék 110 leiki á tveimur og hálfu tímabili og var til að mynda með 17 stig að meðaltali í leik tímabilið 2014-15.

Frá árinu 2015 hefur Wroten komið víða við og meðal annars leikið í Eistlandi, Póllandi, Grikklandi, Spáni og Egyptalandi.

Í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Selfoss segir að hann sé væntanlegur til landsins í byrjun næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert