Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, sagði í samtali við mbl.is strax eftir tapleik gegn Njarðvík að þriðji leikhlutinn hafi orðið liði hans að falli í kvöld en Þórsarar töpuðu leiknum með tveimur stigum.
Spurður nánar út í leikinn sagði Lárus þetta:
„Við fáum á okkur 35 stig í þriðja leikhluta og lendum undir. Eftir það erum við bara að elta. Þeir hittu rosalega vel í þriðja leikhluta og búa sér til svigrúm sem skilaði sér fyrir þá, þannig að þriðji leikhlutinn varð okkur að falli.“
Þið byrjið leikinn samt mun betur og í upphafi virtust allar ykkar aðgerðir vera mun auðveldari en hjá Njarðvíkingum. Ertu sammála því?
„Ég er alveg sammála því. Við náðum að opna þá vel en þeir voru að skora rosalega vel úr einstaklingsframtökum þar sem Evans og Veigar fóru fremstir í flokki.“
Þið komist síðan yfir í fjórða leikhluta eftir frábæra frammistöðu frá Nikolas Tomsick. Það dugði samt ekki til. Hvað vantaði upp á í lokin til að klára þennan leik?
„Okkur vantaði meiri orku í vörninni en á sama tíma vorum við að ná mikið af sóknarfráköstum. Við vorum búnir að tala um það fyrir leikinn að þeir hitta mjög vel á heimavelli og við ætluðum að stoppa þristana hjá þeim en það tókst ekki.“
Ef við skoðum þetta í heild sinni þá skorar Tomsick 32 stig og þið eruð með gríðarlega mikið af sóknarfráköstum. Vantaði framlag frá fleiri leikmönnum í kvöld?
„Já, já. Við erum kannski að skilja eftir ansi mörg lay-up. Við vorum að brenna af örugglega tíu slíkum og það eru bara 20 stig. Það bítur þig í rassinn í svona leikjum.“
Áttir þú von á öðruvísi leik hjá Njarðvíkingum í ljósi þess að þeir spiluðu án Khalil Shabazz og Dwayne Lautier-Ogunleye?
„Nei, mér finnst Njarðvík spila alltaf betur þegar það vantar einhvern hjá þeim. Evans og Veigar voru frábærir og drógu vagninn í kvöld.“
Næsti leikur er heimaleikur gegn Valsmönnum sem eru brothættir. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?
„Ég hlakka til. Þetta var fyrsti leikurinn okkar með Mustafa og mér fannst hann bara koma vel út úr honum en hann á meira inni þannig ég hlakka bara til að spila gegn Valsmönnum,“ sagði Lárus í samtali við mbl.is.