Í síðasta mánuði tóku leikmenn Chicago Bulls og Charlotte Hornets 97 þriggja stiga skot í einum leik og geiguðu 75 þeirra. Það eru slíkar tölur sem hægt og sígandi fá fleiri til að hætta að horfa á leiki NBA-körfuboltans í sjónvarpi.
Reyndar spila fleiri þættir inn í minnkandi áhorf hér vestra, en hluti af því er þó breyttur leikstíll sem nú tröllríður NBA-boltanum – þriggja stiga skotin.
„Þetta ergir mig mikið, því leikurinn hefur þróast út í keppni í þriggja stiga skotum og vítaskotum. Mér líkar þetta alls ekki en þegar ég segi það verða leikmennirnir reiðir. Ég vil hins vegar ekki að hver leikur af öðrum fari í þriggja stiga skotkeppni. Það er ekkert gaman að því,“ sagði NBA-prófessorinn Charles Barkley nýlega í viðtali.
Deildin tók upp þriggja stiga skot árið 1979 og fyrsta áratuginn var litið á það sem brellu fyrir þjálfarana, en smám saman á tíunda áratugnum fórum við að sjá leikmenn sem voru sérfræðingar í þriggja stiga skotum. Fremstur í flokki var Reggie Miller hjá Indiana Pacers.
Það var ekki þó fyrr en fyrir 20 árum að þjálfarar fóru að leggja meiri áherslu á að nota þriggja stiga skyttur sem vopn til að teygja á vörn andstæðinganna. Á undanförnum áratug hefur þessi staða breyst enn frekar í kjölfar þróunar sem sést hefur í öðrum liðsíþróttum – áhrif tölfræðigreiningar á stigaskorun.
Á þessu keppnistímabili taka liðin að meðaltali nærri 38 þriggja stiga skot í leik, en fyrir tólf árum tóku þau að meðaltali 20, og tíu árum fyrr voru það níu skot í leik.
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.