Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur rætt við Máté Dalmay um þjálfun kvennaliðs félagsins en staðan er laus eftir að Friðrik Ingi Rúnarsson sagði starfi sínu lausu fyrir áramót.
Keflavík er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari en liðið er í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar um þessar mundir með 14 stig eftir ellefu leiki.
Máté þjálfaði síðast karlalið Hauka en hann hætti með liðið 1. desember eftir slæma byrjun á tímabilinu. Voru Haukar stigalausir eftir átta umferðir þegar Máté lét af störfum. Friðrik Ingi tók einmitt við starfinu hans Mátés.
Máté tók við Haukum fyrir tímabilið 2021/22 og kom liðinu upp í efstu deild með sannfærandi hætti á fyrsta tímabili.
Haukar enduðu svo í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar tímabilið á eftir, en féllu úr leik gegn Þór frá Þórlákshöfn í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.
Liðið endaði svo í tíunda sæti á síðustu leiktíð og var langt frá sæti í úrslitakeppninni.