Álftanes og Njarðvík áttust við í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri 81:75-sigri Njarðvíkinga í háspennuleik. Leikið var á heimavelli Álftaness. Eftir leikinn er Álftanes með 10 stig en Njarðvík er í þriðja sæti með 16 stig.
Fyrsti leikhluti var mjög jafn. Njarðvíkingar náðu forystunni strax í upphafi en náðu aldrei meira en 4 stiga forskoti. Þann mun jafnaði Álftanes í stöðunni 8:8. Eftir þetta var jafnt á öllum tölum í fyrsta leikhluta en Álftanes náði forskoti í stöðunni 16:15. Flottur tvistur frá Justin James færði Álftanesi síðan þriggja stiga forskot 20:17 eftir fyrsta leikhluta.
Það sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Njarðvíkingar jöfnuðu í stöðunni 23:23 og eftir það skiptust liðin á að jafna og komast yfir allt þangað til í stöðunni 36:35 fyrir Njarðvík. Þá setti Hörður Axel Vilhjálmsson niður þriggja stiga körfu fyrir Álftanes og staðan 38:36 fyrir heimamenn. Justin James gerði síðan gott betur og bætti við tveggja stiga körfu og Álftanes fór með fjögurra stiga forskot inn í hálfleikinn í stöðunni 40:36.
Justin James skoraði 14 stig og 3 stoðsendingar í fyrri hálfleik fyrir Álftanes og Dimitrios Klonaras var með 5 fráköst.
Khalil Shabazz var með 12 stig fyrir Njarðvík. Evans Raven Ganapamo var með 7 fráköst og Dominykas Milka með 2 stoðsendingar.
Álftanes byrjaði þriðja leikhluta mjög vel og náði að byggja upp 9 stiga forskot í stöðunni 56:47. Þá tóku Njarðvíkingar heldur betur við sér, börðust eins og ljón og náðu að lokum að jafna leikinn með glæsilegri þriggja stiga körfu frá Khalil Shabazz í stöðunni 56:56. Njarðvíkingar voru síðan nálægt því að komast yfir með flautuskoti í lok þriðja leikhluta en boltinn vildi ekki ofan í. Staðan 56:56 eftir þriðja leikhluta.
Fjórði leikhluti var vægast sagt háspenna. Njarðvíkingar náðu 5 stiga forskoti í stöðunni 64:59. Þann mun jafnaði Álftanes og komst yfir í stöðunni 69:68 og var 4 mínútur eftir af leiknum.
Njarðvíkingum tókst að jafna í stöðunni 71:71 og komst yfir 75:71 þegar 2:50 voru eftir af leiknum. Þá fóru taugarnar að taka sinn toll hjá báðum liðum þar sem vítaskot og góð færi fóru í súginn hjá báðum liðum á ögurstundu.
Fór svo að taugar Njarðvíkinga reyndust sterkari og lönduðu þeir að lokum 6 stiga sigri eftir gríðarlega spennandi lokamínútur og sekúndur í leiknum.
Stigahæstur í liði Álftaness var Justin James með 26 stig og 6 fráköst. Hörður Axel Vilhjálmsson var með 4 stoðsendingar.
Í liði Njarðvíkur var Khalil Shabazz með 32 stig. Dominykas Milka var með 10 fráköst og 3 stoðsendingar.
Gangur leiksins:: 4:8, 8:12, 17:17, 20:17, 23:23, 29:26, 33:32, 40:36, 42:38, 49:45, 56:49, 56:56, 59:64, 69:68, 71:75, 75:81.
Álftanes: Justin James 26/6 fráköst/6 stolnir, Haukur Helgi Briem Pálsson 12, David Okeke 10, Hörður Axel Vilhjálmsson 8, Dúi Þór Jónsson 8, Dimitrios Klonaras 8/5 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 3.
Fráköst: 15 í vörn, 1 í sókn.
Njarðvík: Khalil Shabazz 32/7 fráköst, Dominykas Milka 23/10 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 11, Mario Matasovic 9/8 fráköst, Evans Raven Ganapamo 4/8 fráköst, Isaiah Coddon 2.
Fráköst: 28 í vörn, 10 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Bjarni Rúnar Lárusson.
Áhorfendur: 217