Panta áhorfendamet

Khalil Shabazz úr Njarðvík skýtur að körfu Álftaness í kvöld.
Khalil Shabazz úr Njarðvík skýtur að körfu Álftaness í kvöld. mbl.is/Karítas

Njarðvík vann Álftanes á útivelli í kvöld í miklum spennuleik í úrvalsdeild karla í körfubolta. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum ánægður með lið sitt sem stóðst próf kvöldsins. Spurður út í hvað það hafi verið sem skóp sigurinn sagði hann þetta:

„Ég er búinn að vera að nota orðið aðlögunarhæfni svolítið mikið upp á síðkastið. Við vinnum mikinn sóknarleik í síðustu viku og síðan komum við hingað á útivöll til að spila mun hægari varnarbolta.

Við finnum síðan þegar líða tekur á leikinn lausnir til að búa til auðveldari stig fyrir okkur og á sama tíma hægja aðeins á Justin James sem við áttum í erfiðleikum með framan af.

Það eru sérstaklega þessi tvö atriði þar sem við náum að einfalda okkar leik og búa til auðveldari stig fyrir okkur og gera Justin aðeins erfiðari fyrir sem skóp sigurinn fyrir okkur í kvöld.“

Rúnar Ingi Erlingsson
Rúnar Ingi Erlingsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Khalil Shabazz var meiddur í síðasta leik ásamt Dwayne sem hafa verið þínar aðalskyttur í vetur en samt vinnur Njarðvík. Síðan kemur Shabazz inn í kvöld og setur 32 stig. Það hlýtur að vera dýrmætt að vera með þessa breidd af leikmönnum úr að velja, ekki satt?

„Að sjálfsögðu og þetta er einkenni góðra liða. Að takast á við áskoranir, læra af þeim og standast prófin. Vandamálið í kvöld var til dæmis að það var bara erfitt að taka Snjólf út af í fjórða leikhluta. Hann spilaði lengur en venjan er en hann spilaði svo vel. Þetta er lúxusvandamál fyrir mig að vera með svona flottan hóp.

Það er okkar að vera nægilega klókir og auðmjúkir til að átta okkur á því hver það er sem er með heitu höndina hverju sinni og spila upp á þann leikmann því það skiptir ekki máli hver það er sem skorar stigin á meðan Njarðvík skorar fleiri stig en andstæðingurinn, vinna og fara glaðir heim.“

Við gerðum nóg

Í lok leiksins var áberandi mikið um það að leikmenn beggja liða væru að klikka á frábærum skotfærum og vítaskotum. Voru þínir menn með ofþandar taugar í lokin?

„Við æfum vítaskot á hverjum einasta degi. Takturinn í leiknum var bara svona. Bæði lið voru að skjóta illa í lokin. Þetta var ekki góður skotleikur heilt yfir. En við gerðum nóg, fundum nægilega góðar lausnir og fengum nægilega mörg stopp til að vinna og það er geggjað.“

Næsti leikur er á móti Keflavík í Icemar höllinni í Innri Njarðvík. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?

„Við þurfum að halda áfram að vinna með aðlögunarhæfni. Keflavík er allt öðruvísi lið en Álftanes en þetta verður geggjaður körfuboltaleikur, stemmning og umgjörð í næstu viku. Ég vil bara panta áhorfendamet í Icemarhöllinni.

Ég get lofað að það verða 12 leikmenn og öflugt fylgdarlið sem verður tilbúið til að skilja allt eftir inni á vellinum til að ná í önnur mikilvæg tvö stig,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.

Rúnar Ingi Erlingsson
Rúnar Ingi Erlingsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert