Þrautreyndir þjálfarar til Keflavíkur

Sigurður Ingimundarson er orðinn þjálfari kvennaliðs Keflavíkur á ný.
Sigurður Ingimundarson er orðinn þjálfari kvennaliðs Keflavíkur á ný. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigurður Ingimundarson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Keflavíkur eftir langa fjarveru en félagið varð á sínum tíma fimm sinnum Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari undir hans stjórn.

Jón Halldór Eðvaldsson, annar fyrrverandi þjálfari Keflavíkur, verður með Sigurði í þjálfuninni, en Keflavíkurliðið varð tvisvar Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari undir hans stjórn.

Víkurfréttir greina frá þessu en Keflavíkurliðið hefur verið án þjálfara síðan Friðrik Ingi Rúnarsson hætti störfum um miðjan desember. Elentínus Margeirsson stýrði liðinu í millitíðinni.

Sigurður þjálfaði kvennaliðið frá 1991 til 1996, aftur um skeið árin 2000 og 2004 og svo í tvö tímabil á árunum 2012 til 2015.

Hann þjálfaði karlalið Keflavíkur enn lengur og var um tíma með bæði liðin á sinni könnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert