Keflavík og Grindavík áttust við í 14. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í kvöld og lauk leiknum með dramatískum sigri Keflavíkur 88:82.
Leikið var á heimavelli Keflavíkur en þetta var fyrsti leikur liðsins eftir að Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson voru ráðnir þjálfarar þess í gær.
Eftir leikinn eru Keflavíkurkonur með 18 stig og deila öðru til fjórða sæti með Þór á Akureyri og Njarðvík en Grindavík er áfram á botninum með 6 stig, eins og Aþena.
Sara Rún Hinriksdóttir setti niður fyrstu stig leiksins áður Grindavíkurkonur náðu undirtökunum í fyrsta leikhluta og náðu 6 stiga forskoti í stöðunni 17:11.
Keflavíkurkonur voru aldrei langt undan og jöfnuðu í stöðunni 17:17 áður en Grindavík komst aftur yfir og náðu 8 stiga forskoti í stöðunni 30:22. Keflavíkurkonur minnkuðu síðan muninn í 30:25 áður en leikhlutinn kláraðist.
Keflavíkurkonur mættu dýrvitlausar í annan leikhlutann og settu niður 10 fyrstu stiginn áður en Grindavík komst á blað í leikhlutanum. Staðan 37:32 fyrir Keflavík.
Hulda Björk Ólafsdóttir jafnaði fyrir Grindavíkurkonur í stöðunni 40:40. Grindavík komst síðan yfir 42:40 en eftir það var jafnt á öllum tölum.
Daisha Bradford átti stórleik í sínum fyrsta leik með Grindavík í fyrri hálfleik, skoraði 20 stig og tók 8 fráköst. Jasmine Dickey setti 16 stig fyrir Kaflvík í fyrri hálfleik og tók 4 fráköst.
Staðan í hálfleik jöfn 48:48.
Grindavíkurkonur mættu örlítið ferskari inn í seinni hálfleikinn og náðu fjögurra stiga forskoti í stöðunni 54:50 og 56:52 fyrir Grindavík. Keflavíkurkonur gáfu ekkert eftir og komust yfir í stöðunum 59:58 og 61:60. Gríndavíkurkonur settu þá þriggja stiga körfu og náðu tveggja stiga forskoti fyrir fjórða leikhlutann.
Grindavíkurkonur mættu sterkar í fjórða leikhluta og juku muninn jafnt og þétt. Þegar 3:42 voru eftir af fjórða leikhluta var staðan 80:73 fyrir Grindavík sem var að auki í sókn. Það sem um munaði fyrir Grindavík voru tvær þriggja stiga körfur í röð frá Daisha Bradford og Huldur Björk Ólafsdóttur.
Keflavíkurkonur reyndu hvað þær gátu að minnka muninn og stela sigrinum og það tókst!
Fyrirliðinn Anna Ingunn Svansdóttir setti niður tvo þrista í röð áður en Jasmine jafnaði leikinn fyrir Keflvík í stöðunni 82:82. Keflavíkurkonur hættu ekki og komust fjórum stigum yfir í stöðunni 86:82 og 12, 3 sekúndur eftir af leiknum.
Grindavíkurkonur tóku leikhlé og reyndu að minnka muninn en það tókst ekki og Keflavíkurkonur unnu magnaðan sigur á Grindavík.
Stigahæst í liði Keflavíkur var Jasmine Dickey með 37 stig og 10 fráköst. Daisha Bradford var með 37 stig og 16 fráköst í liði Grindavík.
Gangur leiksins:: 3:8, 11:15, 19:23, 24:32, 34:32, 40:37, 44:43, 48:48, 50:50, 52:56, 57:58, 61:63, 63:68, 71:76, 76:82, 88:82.
Keflavík: Jasmine Dickey 37/10 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 16/7 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 11, Anna Lára Vignisdóttir 11, Julia Bogumila Niemojewska 8/6 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 4, Agnes María Svansdóttir 1/4 fráköst.
Fráköst: 22 í vörn, 10 í sókn.
Grindavík: Daisha Bradford 34/16 fráköst, Isabella Ósk Sigurðardóttir 15/4 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 15, Sofie Tryggedsson Preetzmann 8/8 fráköst, Sóllilja Bjarnadóttir 5, Þórey Tea Þorleifsdóttir 3, Mariana Duran 2/5 fráköst.
Fráköst: 27 í vörn, 10 í sókn.
Dómarar: Jóhannes Páll Friðriksson, Jakob Árni Ísleifsson, Jón Svan Sverrisson.
Áhorfendur: 123