Gömlu stórveldin knúðu fram sigra

Þórsarinn Mustapha Heron reynir skot að körfu KR á Meistaravöllum …
Þórsarinn Mustapha Heron reynir skot að körfu KR á Meistaravöllum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR og Valur nældu sér í dýrmæt stig í kvöld en Reykjavíkurliðin unnu heimasigra gegn Þór frá Þorlákshöfn og Álftanesi í spennuleikjum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik.

Valur vann Álftanes, 87:81, og KR vann Þór, 102:99.

KR náði því Þór að stigum í miðri deildinni með 14 stig. Valsmenn komust fram úr Álftanesi í neðri hlutanum og eru með 12 stig en Álftnesingar 10 stig í tíunda sætinu.

Fyrri hálfleikurinn hjá KR og Þór var jafn og staðan að honum loknum 51:49, Þórsurum í hag. KR náði undirtökunum í þriðja leikhluta og komst í 82:71 að honum loknum.

Þórsarar voru hins vegar búnir að jafna metin á ný um miðjan fjórða leikhluta. KR komst í 95:90 þegar þrjár mínútur voru eftir en Þór kom því niður í 96:95 þegar 90 sekúndur voru eftir. Aftur minnkaði Þór muninn í 100:99 en  Þorvaldur Orri Árnason svaraði úr tveimur vítaskotum, 102:99, þegar 10 mínútur voru eftir. Það reyndist ráða úrslitum.

Vlatko Granic skoraði 20 stig fyrir KR, Þórir Guðmundur  Þorbjarnarson 18 og Þorvaldur Orri Árnason 15.

Jordan Semple skoraði 25 stig fyrir Þór, Mustapha Heron 23 og Nikolas Tomsick 16.

Kristinn og Adam gerðu útslagið

Á Hlíðarenda var mikið jafnræði hjá Val og Álftanesi og staðan jöfn í hálfleik, 46:46. Eftir þriðja leikhluta var Álftanes yfir, 64:63 og spennan hélst fram á lokakaflann. Álftanes komst yfir, 81:79, þegar tvær mínútur voru eftir þegar liðið hafði skorað sjö stig í röð. 

Kristinn Pálsson jafnaði fyrir Val, 81:81, þegar tæp mínúta var eftir og skoraði aftur, 83:81, sextán sekúndum fyrir leikslok. Adam Ramstedt skoraði úr vítaskoti, 84:81, og náði svo frákasti sjálfur eftir seinna skotið. Hann fékk tvö vítaskot í viðbót og innsiglaði sigurinn, 87:81.

Taiwo Badmus skoraði 20 stig fyrir Val, Adam Ramstedt 19, Kristinn Pálsson 18 og Kristófer Acox 16.

Justin James skoraði 21 stig fyrir Álftanes, David Okeke 20 og Haukur Helgi Pálsson 12.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert