ÍR-ingar gerðu sér lítið fyrir og skelltu toppliði úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Stjörnunni í kvöld með sigri á heimavelli sínum í Skógarseli í Mjódd, 103:101, eftir framlengingu.
Stjörnumenn eru áfram efstir með 22 stig eftir 14 leiki en Tindastóll er með 20 stig og sækir Hauka heim annað kvöld. ÍR komið með 12 stig í sjöunda til áttunda sæti deildarinnar.
Eftir jafnan fyrsta leikhluta þar sem Stjarnan var með nauma forystu, 24:22, gáfu Garðbæingar í og staðan í hálfleik var 50:38, þeim í hag.
Viðsnúningurinn var hins vegar algjör í þriðja leikhluta. ÍR-ingar skoruðu 32 stig gegn 14 og staðan var orðin 70:64, þeim í hag að honum loknum.
ÍR-ingar héldu síðan fjögurra til tíu stiga forystu í fjórða leikhluta þar til Stjarnan minnkaði muninn í 86:84 þegar 80 sekúndur voru eftir. Stjarnan gerði fjögur síðustu stigin og Jase Febres jafnaði úr tveimur vítaskotum þegar 10 sekúndur voru eftir og tryggði Garðbæingum framlengingu, 88:88.
ÍR náði aftur undirtökum í framlengingunni og komst í 100:95. Stjarnan minnkaði það í eitt stig en Oscar Jörgensen skoraði, 102:99, þegar 20 sekúndur voru eftir. Ægir Þór Steinarsson svaraði, 102:101. Matej Kavas skoraði úr öðru vítaskoti af tveimur, 103:101, og Stjarnan tók leikhlé, þremur sekúndum fyrir leikslok.
Þriggja stiga skot Bjarna Guðmanns geigaði, Kavas náði frákastinu og sigurinn var ÍR-inga.
Jacob Falko átti stórleik og skoraði 35 stig fyrir ÍR auk þess sem hann átti 7 stoðsendingar. Kavas skoraði 16 stig og Hákon Örn Hjálmarsson 14.
Jase Febres skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna, Kristján Fannar Ingólfsson 18 og Shaquille Rombley var með 16 stig og 11 fráköst.