ÍR skellti toppliðinu í framlengingu

Jacob Falco átti stórleik með ÍR og á hér í …
Jacob Falco átti stórleik með ÍR og á hér í höggi við Júlíus Orra Ágústsson og Kristján Fannar Ingólfsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍR-ingar gerðu sér lítið fyrir og skelltu toppliði úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Stjörnunni í kvöld með sigri á heimavelli sínum  í Skógarseli í Mjódd, 103:101, eftir framlengingu.

Stjörnumenn eru áfram efstir með 22 stig eftir 14 leiki en Tindastóll er með 20 stig og sækir Hauka heim annað kvöld. ÍR komið með 12 stig í sjöunda til áttunda sæti deildarinnar.

Eftir jafnan fyrsta leikhluta þar sem Stjarnan var með nauma forystu, 24:22, gáfu Garðbæingar í og staðan í hálfleik var 50:38, þeim í hag.

Viðsnúningurinn var hins vegar algjör í þriðja leikhluta. ÍR-ingar skoruðu 32 stig gegn 14 og staðan var orðin 70:64, þeim í hag að honum loknum.

ÍR-ingar héldu síðan fjögurra til tíu stiga forystu í fjórða leikhluta þar til Stjarnan minnkaði muninn í 86:84 þegar 80 sekúndur voru eftir. Stjarnan gerði fjögur síðustu stigin og Jase Febres jafnaði úr tveimur vítaskotum þegar 10 sekúndur voru eftir og tryggði Garðbæingum framlengingu, 88:88.

ÍR náði aftur undirtökum í framlengingunni og komst í 100:95. Stjarnan minnkaði það í eitt stig en Oscar Jörgensen skoraði, 102:99, þegar 20 sekúndur voru eftir. Ægir Þór Steinarsson svaraði, 102:101. Matej Kavas skoraði úr öðru vítaskoti af tveimur, 103:101, og Stjarnan tók leikhlé, þremur sekúndum fyrir leikslok.

Þriggja stiga skot Bjarna Guðmanns geigaði, Kavas náði frákastinu og sigurinn var ÍR-inga.

Jacob Falko átti stórleik og skoraði 35 stig fyrir ÍR auk þess sem hann átti 7 stoðsendingar. Kavas skoraði 16 stig og Hákon Örn Hjálmarsson 14.

Jase Febres skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna, Kristján Fannar Ingólfsson 18 og Shaquille Rombley var með 16 stig og 11 fráköst.

Stjörnumaðurinn Júlíus Orri Ágústsson með boltann í leiknum í kvöld …
Stjörnumaðurinn Júlíus Orri Ágústsson með boltann í leiknum í kvöld en Oscar Jörgensen úr ÍR er til varnar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert