Serbinn Nikola Jokic, leikmaður Denver Nuggets í NBA-deildinni í körfuknattleik, meiddist í upphitun fyrir leik gegn Houston Rockets í nótt og gat því ekki tekið þátt í honum.
Fjarvera Jókersins reyndist vera skarð fyrir skildi þar sem Houston vann leikinn 128:108.
Hann meiddist á hægri olnboga og kvaðst Mike Malone, þjálfari Nuggets, ekki vita hversu alvarleg meiðslin væru er hann var spurður út í þau af fréttamönnum eftir leikinn.
Jokic er með 31 stig, 13 fráköst og tíu stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu og því munar um minna fari svo að hann verði frá um skeið.