Það var sannkallaður stórleikur og grannaslagur þegar Njarðvík tók á móti Keflavík í 14. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Njarðvíkinga, 107:98.
Troðfullt var í Icemar höllinni í Innri Njarðvík, heimavelli Njarðvíkur þar sem verið var að minnast þess að 25 ár eru frá fráfalli Örlygs Arons Sturlusonar sem lék með Njarðvík.
Eftir leikinn eru Njarðvíkingar áfram í þriðja sætinu með 18 stig en Keflavík er með 14 stig.
Keflvíkingar voru skrefi á undan Njarðvík allan fyrri hálfleik og náðu mest 11 stiga forskoti í fyrri hálfleik en þá var staðan 25:14 fyrir Keflavík. Upplegg Keflvíkinga í leiknum var greinilega að skjóta sem mest fyrir utan þriggja stiga línuna og gekk það nokkuð vel.
Aðgerðir Keflavíkur í fyrri hálfleik virtust ganga betur og auðveldar fyrir sig heldur en hjá Njarðvíkingum sem virtust þurfa að hafa meira fyrir hlutunum. Það verður þó að hrósa Njarðvíkingum fyrir það að þeir gáfust aldrei upp og hleyptu Keflvíkingum aldrei of langt frá sérí fyrri hálfleik.
Keflvíkingar náðu nokkrum sinnum 9 stiga forskoti í fyrri hálfleik en þann mun voru Njarðvíkingar duglegir að minnka niður í 3-4 stig alveg þangað til þeim tókst að jafna í stöðunni 51:51.
Þá fengu Keflvíkingar dæmda tæknivillu sem þeir nýttu með samtals þremur stigum. Evans Raven Ganapamo átti frábæran endasprett fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik og skoraði 9 af síðustu 12 stigum Njarðvikur og tókst að jafna leikinn fyrir hálfleik í stöðunni 54:54 sem voru hálfleikstölur.
Evans Raven Ganapamo skoraði 25 stig í fyrri hálfleik fyrir Njarðík en Dominykas Milka var með 6 fráköst. Jaka Brodnik var með 12 stig fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og Remu Emil Raitanen var með 6 fráköst.
Njarðvíkingar klikkuðu á sinni fyrstu sókn í þriðja leikhluta og refsuðu Keflvíkingar með þriggja stiga körfu. Njarðvíkingar jöfnuðu í stöðunni 57:57 og komust yfir 65:60.
Keflvíkingar komust aftur yfir í stöðunni 71:70 fyrir Keflavík en Njarðvíkingar neituðu að gefast upp, komust aftur yfir og leiddu með 6 stigum eftir þriðja leikhluta. Staðan 82:76 fyrir fjórða leikhluta.
Njarðvíkingar byggðu upp gott forskot í fjórða leikhluta og náðu mest 16 stiga forskoti í stöðunni 105:89 sem var eins gott fyrir heimamenn því þá settu Keflvíkingar í alvöru gír og minnkuðu muninn niður í 7 stig í stöðunni 105:98 og 36,9 sekúndur eftir af leiknum.
Áhlaup Keflavíkur dugði ekki til því Njarðvíkingar unnu annan leikinn í röð milli þessara liða og montrétturinn er áfram Njarðvíkinga.
Evans Raven Ganapamo skoraði hvorki meira né minna en 44 stig fyrir Njarðvíkinga og Dominykas Milka tók 13 fráköst.
Ty-Shon Alexander skoraði 22 stig fyrir Keflavík Jarell Reischel tók 11 fráköst.