Jón Axel Guðmundsson og samherjar hans í San Pablo Burgos héldu áfram sigurgöngu sinni í spænsku B-deildinni í körfuknattleik í gærkvöld.
San Pablo vann þá stórsigur gegn Ourense á heimavelli, 106:81, og hefur unnið sextán af sautján leikjum sínum á tímabilinu, sem er nú nákvæmlega hálfnað. Liðið er efst í deildinni en Fuenlabrada og Estudiantes eru í öðru og þriðja sæti, einum sigurleik á eftir. Aðeins efsta liðið kemst beint upp en næstu átta lið fara í umspil.
Jón Axel var drjúgur að vanda en hann skoraði 9 stig fyrir San Pablo, átti 6 stoðsendingar og tók 4 fráköst en hann spilaði í 19 mínútur.
Í Þýskalandi unnu Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín sinn þriðja leik í röð, 92:65 gegn Heidelberg, og eru að rétta sinn hlut eftir slæmt gengi lengi vel í vetur. Liið er nú í 12. sæti eftir 15 umferðir af 32 og nálgast sæti í úrslitakeppninni.
Martin, sem er fyrirliði Alba, átti sex stoðsendingar fyrir liðið en skoraði ekki og tók eitt frákast á 16 mínútum.
Í BNXT-deild Belgíu og Hollands töpuðu Styrmir Snær Þrastarson og samherjar í Belfius Mons fyrir Leiden, 85:70, en þeir eru í 12. sæti af 19 liðum. Styrmir skoraði 12 stig og átti 4 fráköst fyrir Mons á 21 mínútu.