Franski körfuknattleiksmaðurinn Steeve Ho You Fat sem lék með Haukum fyrri hluta keppnistímabilsins, ætlar að framlengja dvöl sína á Íslandi en honum var sagt upp störfum hjá Hafnarfjarðarliðinu fyrir jól.
Samkvæmt heimildum mbl.is gengur hann til liðs við Þór í Þorlákshöfn og spilar því áfram í úrvalsdeildinni.
Ho You Fat er 36 ára gamall framherji eða miðherji sem hafði leikið allan sinn feril í tveimur efstu deildum Frakklands áður en hann kom til liðs við Hauka síðast með Fos Provence í B-deidlinni og þar á undan í efstu deild með Metropolitans þar sem hann var samherji Victors Wembanyama, núverandi stjörnuleikmanns San Antonio Spurs í NBA-deildinni.
Með Haukum skoraði Ho You Fat 14,5 stig að meðaltali í leik og tók 7 fráköst að meðaltali en hann lék ellefu leiki með Hafnarfjarðarliðinu í úrvalsdeildinni.