Söguleg endurkoma New Orleans

CJ McCollum skoraði 45 stig í endurkomusigri.
CJ McCollum skoraði 45 stig í endurkomusigri. AFP/Megan Briggs

New Orleans Pelicans vann magnaðan endurkomusigur á Utah Jazz, 123:119, eftir framlengdan leik í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Utah náði mest 25 stiga forystu í leiknum, New Orleans náði hins vegar að snúa taflinu við og hefur aldrei áður í sögunni tekist að vinna leik eftir að hafa verið svo mörgum stigum undir á einum tímapunkti.

CJ McCollum fór hamförum hjá New Orleans og skoraði 45 stig ásamt því að taka átta fráköst og verja þrjú skot. Dejounte Murray bætti við 26 stigum, níu fráköstum og 11 stoðsendingum.

Walker Kessler skoraði 19 stig og tók 13 fráköst hjá Utah.

Donovan Mitchell fór fyrir Cleveland Cavaliers þegar liðið vann öruggan sigur á Phoenix Suns, 118:92. Mitchell skoraði 33 stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Reynsluboltinn Kevin Durant var stigahæstur hjá Phoenix með 23 stig, sjö fráköst og tvö varin skot.

Cleveland hefur nú unnið 36 af fyrstu 42 leikjum sínum á tímabilinu og er langefsta liðið í Austurdeildinni.

Önnur úrslit:

Charlotte – Dalls 110:105
Houston – Detroit 96:107
Memphis – Minnesota 108:106
New York – Atlanta 119:110
Golden State – Boston 85:125
LA Clippers – Chicago 99:112

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert