Brittany Dinkins átti stórkostlegan leik fyrir Njarðvík þegar liðið tók á móti Stjörnunni í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Njarðvík í kvöld.
Leiknum lauk með átta stiga sigri Njarðvíkur, 101:93, eftir framlengdan leik en Dinkins var með tvöfalda þrennu, skoraði 48 stig, tók ellefu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.
Þetta var annar sigur Njarðvíkinga í röð en liðið er í fjórða sætinu með 20 stig, fjórum stigum minna en topplið Þórs. Stjarnan, sem hafði unnið tvo leiki í röð fyrir leik kvöldsins, er með 12 stig í sjötta sætinu.
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Njarðvík leiddi með átta stigum í hálfleik, 47:39. Njarðvík leiddi með fjórum stigum, 69:65, að þriðja leikhluta loknum og fjórði leikhluti var æsispennandi.
Ena Viso kom Njarðvík tveimur stigum yfir, 84:82, en Denia Davis-Stewart jafnaði metin fyrir Stjörnuna af vítalínunni þegar sjö sekúndur voru til leiksloka. Bæði lið fengu tækifæri til þess að vinna leikinn en tókst ekki að koma boltanum í körfuna og því var gripið til framlengingar þar sem Njarðvíkingar voru mun sterkari.
Viso skoraði 14 stig fyrir Njarðvík, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar en Ana Clara Paz og Katarzyna Trzeciak skoruðu 23 stig hvor fyrir Stjörnuna.