Grindvíkingum berst góður liðstyrkur

Bragi Guðmundsson í leik með Campbell gegn North Carolina í …
Bragi Guðmundsson í leik með Campbell gegn North Carolina í bandaríska háskólaboltanum í síðasta mánuði. AFP/Grant Halverson

Körfuknattleiksmaðurinn Bragi Guðmundsson hefur skrifað undir samning við uppeldisfélag sitt Grindavík um að leika með liðinu út yfirstandandi keppnistímabil.

Bragi er 21 árs bakvörður sem hefur leikið í bandaríska háskólaboltanum undanfarin tvö tímabil, fyrst með Penn State og svo með Campbell fyrri hluta þessa tímabils.

„Það eru auðvitað frábærar fréttir að fá Braga heim. Hann hefur vaxið mikið sem leikmaður úti í Bandaríkjunum og mun bæta vel í vopnabúrið okkar.

Að fá hávaxinn og snöggan leikmann sem getur líka skotið inn í hópinn eykur breiddina hjá okkur töluvert og gefur mér fleiri tromp á hendi til að spila úr,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert