Körfuknattleiksdeild KR hefur samið við Cheah Emountainspring Rael Whitsitt um að leika með kvennaliðinu út yfirstandandi tímabil. KR leikur í 1. deild.
Whitsitt er 26 ára gamall miðherji frá Bandaríkjunum sem er 180 sentimetrar á hæð. Hún lék tímabilið 2022-23 með Snæfelli í úrvalsdeildinni og var þá með 24 stig og 18 fráköst að meðaltali í leik.
Whitsitt útskrifaðist úr Texas A&M háskólanum árið 2020 og hefur síðan leikið sem atvinnumaður í Þýskalandi, Írlandi, Kósovó og Púertó Ríkó og á Íslandi.
Hún er þegar byrjuð að láta að sér kveða með KR og skoraði til að mynda 30 stig og tók 11 fráköst í 88:63-sigri á ÍR í 1. deildinni í Breiðholti í síðustu viku.
„Cheah er frábær viðbót inn í hópinn og kemur til með að fylla upp í miðherjastöðuna okkar. Hún hefur komið með alveg ofboðslega mikla orku inn á æfingar hjá okkur síðustu vikur og er með mikil gæði.
Hún hefur einnig komið inn af miklum krafti sem þjálfari fyrir yngri flokkana og því mikill fengur fyrir allan klúbbinn að fá stelpu eins og Cheah í KR,“ sagði Hörður Unnsteinsson þjálfari KR í tilkynningu frá félaginu.