Álftanes fjarlægðist botnsvæði úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld þegar liðið hafði betur gegn KR í 15. umferð deildarinnar á Álftanesi.
Leiknum lauk með 16 stiga sigri Álftanes, 111:100, en Justin James átti stórleik fyrir Álftanes og skoraði 29 stig, tók 10 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Álftanes fer með sigrinum upp í níunda sætið og í 12 stig, líkt og Valur og ÍR, en liðið hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir leik kvöldsins. KR-ingar eru áfram í sjötta sætinu með 14 stig en liðið hefur tapað þremur af síðustu fimm leikjum sínum.
Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi en Álftnesingar voru þó með yfirhöndina allan tímann og leiddu með tveimur stigum í hálfleik, 54:52.
Álftanes skoraði 27 stig gegn 16 stigum KR og leiddi með 13 stigum að þriðja leikhluta loknum, 81:68. KR-ingum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.
David Okeke skoraði 23 stig fyrir Álftanes, tók sex fráköst og gaf tvær stoðsendingar en Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var stigahæstur hjá KR með 27 stig, fjögur fráköst og tíu stoðsendingar.