Leikmenn tjá sig vegna ofbeldisásakana í garð Brynjars

Brynjar Karl Sigurðsson talar við sína leikmenn hjá Aþenu.
Brynjar Karl Sigurðsson talar við sína leikmenn hjá Aþenu. mbl.is/Eyþór Árnason

Leikmenn kvennaliðs Aþenu í körfubolta hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær hafna því alfarið að hafa verið beittar ofbeldi af þjálfara sínum Brynjari Karli Sigurðssyni.

Mikið hefur gustað um kvennalið Aþenu eftir leik Aþenu og Þórs frá Akureyri í 16. umferð úrvalsdeildarinnar sem fram fór í Austurbergi þann 28. janúar.

Eru ekki beittar ofbeldi

Bjarney Láru Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar, er ein þeirra sem hafa gagnrýnt ummæli Brynjars og sakað hann um gróft ofbeldi í garð leikmanna sinna. Þá sendi ÍSÍ, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem sambandið fordæmir allt ofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar.

Við, leikmenn meistaraflokks Aþenu höfum ákveðið að tjá okkur um umræðu síðustu daga. Því hefur verið haldið fram að við séum beittar ofbeldi og orð eins og „ofbeldissamband” notað til að lýsa okkar aðstæðum. Við viljum taka það skýrt fram að við erum ekki beittar ofbeldi,“ segir í tilkynningu leikmanna Aþenu sem birtist á Facebook-síðu félagsins.

Yfirlýsingar um ofbeldi vanvirðing

„Okkur þykir slíkar yfirlýsingar vanvirðing við okkur sem fullorðna einstaklinga sem af fúsum og frjálsum vilja göngum í Aþenu og spilum fyrir okkar lið. Við erum fullfærar um að tjá tilfinningar okkar, mynda okkar eigin skoðanir, draga ályktanir og erum á allan hátt dómbærar á það sem gerist í kringum okkur. Að nota orðið ofbeldi í þessu samhengi er bæði villandi og skaðlegt. Það gerir einnig lítið úr alvarlegu eðli raunverulegs ofbeldis.

Engin sem hafa haldið þessari umræðu á lofti hafa komið að máli við okkur leikmennina. Það er óásættanlegt að einstaklingar sem hafa tjáð sig um málið opinberlega, t.d. Bjarney Láru Bjarnadóttir sem upphóf ofbeldisásakanirnar, hafi ekki haft beint samband við okkur heldur myndi skoðanir á okkur og geri okkur upp tilfinningar út frá myndbrotum úr viðtölum eða fyrirsögnum í fjölmiðlum,“ segir meðal annars í tilkynningunni sem má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Uppfært:
Ekki var farið rétt með málavöxtu í upphaflegu fréttinni og hún hefur verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert