Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Jimmy Butler fékk ósk sína loks uppfyllta þegar Miami Heat skipti honum til Golden State Warriors. Bæði lið leika í NBA-deildinni.
Butler fór til Golden State á meðan Andrew Wiggins, Dennis Schröder og Kyle Anderson fóru til Miami ásamt því að Miami fær valrétt í fyrstu umferð nýliðavals.
Butler fór ekki leynt með að hann vildi komast burt frá Miami, sem setti hann nokkrum sinnum í leikbann á undanförnum vikum.
Fyrst fór Butler í sjö leikja bann vegna þess sem Miami Heat taldi óviðeigandi hegðun og stuttu síðar var Butler settur í tveggja leikja bann eftir að hann missti af flugi fyrir leik liðsins gegn Milwaukee Bucks þar í borg.
Þá setti Miami Butler nýverið í fimm leikja bann eftir að hann strunsaði burt af æfingu liðsins.