Njarðvík og KR mættust í úrvalsdeild karla í körfubolta í Innri-Njarðvík í kvöld og lauk leiknum með 24 stiga sigri Njarðvíkinga 103:79. Var þetta liður í 17. umferð Íslandsmóts karla í körfubolta.
Eftir leikinn eru Njarðvíkingar með 22 stig í þriðja sæti en KR er áfram með 16 stig.
Njarðvíkingar mættu gríðarlega grimmir til leiks og ætluðu heldur betur að hefna fyrir risatapið í bikarnum gegn KR á dögunum. Njarðvíkingar komust í 5:0 og byggðu upp gott forskot sem þeir héldu út leikhlutann. Mestur var munurinn í leikhlutanum 12 stig þegar Khalil Shabazz setti þrist þegar 0,6 sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28:16 fyrir Njarðvík.
KR-ingar byrjuðu annan leikhluta af krafti og settu strax niður þrist. Þeir gengu enn lengra og minnkuðu muninn niður í 6 stig. Njarðvíkingar voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og juku muninn aftur og náðu 13 stiga forskoti með þriggja stiga körfu frá Veigari Páli Alexandersyni í stöðunni 40:27. Þá tóku KR-ingar leikhlé.
Leikhlé breytti litlu fyrir KR því Njarðvíkingar léku á alls oddi í öðrum leikhluta. Þegar 1 mínúta og 30 sekúndur voru eftir af leikhlutanum var staðan 50:31, 19 stiga munur.
KR-ingar reyndu að saxa á forskot Njarðvíkur og tókst það tímabundið en þá settu Njarðvíkingar í næsta gír og juku muninn í 20 stig fyrir hálfleik.
Staðan í hálfleik var 54:34 fyrir Njarðvík.
Mario Matasovic skoraði 13 stig í fyrri hálfleik fyrir Njarðvík. Linards Jaunzems skoraði 11 stig fyrir KR. Dominykas Milka átti frábæran fyrri hálfleik fyrir Njarðvík og skoraði 9 stig og tók 8 fráköst. Í liði KR var Veigar Áki Hlynsson með 4 fráköst.
Þriðji leikhluti var sveiflukenndur. Njarðvíkingar náðu 23 stiga forskoti þegar Khalil Shabazz setti þrist í stöðunni 57:34. Kr-ingar reyndu að minnka muninn og tókst það á köflum en Njarðvíkingar juku forskotið aftur, bættu um betur og náðu 24 stiga forskoti í stöðunni 73:49. Eftir þetta fóru KR-ingar að saxa á forskotið og náðu að minnka muninn í 18 stig fyrir fjórða leikhluta. Staðan eftir þriðja leikhluta var 78:60.
Það kom alvöru áhlaup frá liði KR í fjórða leikhluta. Þeir léku á als oddi og minnkuðu muninn niður í 11 stig í stöðunni 82:71 þegar 6:58 voru eftir af leiknum. Þá tók Rúnar Ingi Erlingsson leikhlé enda allt að ganga upp hjá KR og ekkert hjá Njarðvík.
KR-ingar minnkuðu muninn niður í 10 stig eftir leikhlé Njarðvíkur í stöðunni 84:74. Þá fór Mario Matasovic á vítapunktinn fyrir Njarðvík og kom þeim 12 stigum yfir í stöðunni 86:74.
Njarðvíkingar ætluðu ekki að gefa sigurinn eftir, stoppuðu áhlaup KR-inga og byrjuðu að byggja upp forskot sitt að nýju. Þegar 2:54 voru eftir af leiknum var staðan orðin 94:74, 20 stiga munur.
Njarðvíkingar voru ekki hættir. Þeim tókst að auka muninn í 24 stig í stöðunni 101:77 og svo aftur í 103:79 sem urðu lokatölur leiksins.
Dwayne Lautier-Ogunleye skoraði 24 stig fyrir Njarðvíkinga og Dominykas Milka tók 12 fráköst.
Í liði KR var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 18 stig og Þorvaldur Orri Árnason tók 6 fráköst.
IceMar-höllin, Bónus deild karla, 06. febrúar 2025.
Gangur leiksins:: 7:2, 12:6, 18:12, 28:16, 30:21, 37:27, 48:31, 54:34, 59:39, 69:48, 73:55, 78:60, 82:69, 86:74, 94:77, 103:79.
Njarðvík: Dwayne Lautier-Ogunleye 24/8 fráköst, Mario Matasovic 20/7 fráköst, Evans Raven Ganapamo 17, Khalil Shabazz 15/4 fráköst/6 stoðsendingar, Dominykas Milka 13/12 fráköst/5 stoðsendingar, Veigar Páll Alexandersson 12/6 fráköst, Isaiah Coddon 2.
Fráköst: 30 í vörn, 10 í sókn.
KR: Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 18/6 fráköst/8 stoðsendingar, Þorvaldur Orri Árnason 15/6 fráköst, Linards Jaunzems 15/5 fráköst, Orri Hilmarsson 8, Friðrik Anton Jónsson 8, Vlatko Granic 8/4 fráköst/5 stoðsendingar, Jason Tyler Gigliotti 4/4 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 3/4 fráköst.
Fráköst: 27 í vörn, 5 í sókn.