LeBron James varð í nótt elsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar í körfuknattleik sem skorar meira en 40 stig í leik og sló þar með met Michaels Jordans.
James skoraði 42 stig, tók 17 fráköst og gaf átta stoðsendingar í 120:112-sigri á Golden State Warriors.
Hann er 40 ára og 38 daga gamall og er þar með einum mánuði eldri en Jordan var þegar hann skoraði 43 stig fyrir Washington Wizards í febrúar árið 2003.
Steph Curry átti stórleik fyrir Golden State er hann skoraði 37 stig og tók sjö fráköst.
Fleiri leikmenn fóru á kostum í deildinni í nótt en Anthony Edwards skoraði 41 stig fyrir Minnesota Timberwolves í 127:114-sigri á Houston Rockets. Tók Edwards auk þess sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Loks var Nikola Jokic, Jókerinn, með þrefalda tvennu fyrir Denver Nuggets þegar hann skoraði 28 stig, tók tíu fráköst og gaf tólf stoðsendingar í 112:90-sigri á Orlando Magic.
Önnur úrslit:
Boston – Dallas 120:127
Portland – Sacramento 108:102
LA Clippers – Indiana 112:119