Íslandi mátti þola nokkuð stórt tap fyrir Slóvakíu í Bratislava, 78:55, í lokaumferð undankeppni Evrópumóts kvenna í körfuknattleik í dag.
Ísland mun ekki vera með á Evrópumótinu í sumar og hafnaði í síðasta sæti riðilsins. Þrátt fyrir slakan leik í dag hefur frammistaða landsliðsins undanfarið vakið mikla lukku.
Slóvakía verður heldur ekki með á Evrópumótinu en til þess hefði liðið þurft að vinna gríðarlega stóran sigur á Íslandi. Tyrkland endar efst í riðlinum og fer á EM og Rúmenía í þriðja sæti, á milli Slóvakíu og Íslands.
Íslenska liðið byrjaði leikinn frábærlega og var mest 15 stigum yfir, 23:8.
Í öðrum leikhluta var slóvakíska liðið hins vegar mun sterkara og fór þremur stigum yfir til búningsklefa, 35:32.
Íslenska liðið sá ekki til sólar í seinni hálfleik, að stuttum kafla undaskildum, og Slóvakía náði góðri forystu og hélt henni.
Sara Rún Hinriksdóttir var annan leikinn stigahæst hjá íslenska liðinu með 20 stig en hún tók einnig fimm fráköst.
Danielle Rodriguez skoraði 14 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Þá átti Eva Wium Elíasdóttir góðan leik en hún skoraði átta stig og tók eitt frákast.
Stig Íslands: Sara Rún Hinriksdóttir 20, Danielle Rodriguez 14, Eva Wium Elíasdóttir 8, Anna Ingunn Svansdóttir 6, Thelma Dís Ágústdóttir 3, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 2, Þóra Kristín Jónsdóttir.