Valur gerði góða ferð í Vesturbæ og sigraði KR, 96:89, í framlengdum erkifjendaslag í úrvalsdeild karla í körfubolta í Vesturbæ í kvöld. Valur er í fjórða sæti með 20 stig. KR er með 16 stig eins og Keflavík, ÍR og Þór frá Þorlákshöfn í 7.-10. sæti.
KR-ingar voru skrefi á undan nánast allan fyrsta leikhluta og voru verðskuldað yfir eftir hann, 24:20. Valsmenn svöruðu í öðrum leikhluta og Josh Jefferson kom Valsliðinu í 29:26 um miðjan annan leikhluta.
Þá tóku KR-ingar aftur við sér, komust yfir á ný og að lokum voru það heimamenn sem voru með naumt forskot í hálfleik, 39:37, í jöfnum og skemmtilegum leik.
KR-ingar voru skrefinu á undan framan af í þriðja leikhluta og náðu mest sex stiga forskoti í stöðunni 59:53 eftir mikla fléttu frá Vlatko Granic.
Þá kom magnaður kafli hjá Val sem skoraði 16 stig af næstu 21 í leiknum og voru gestirnir með forystuna fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 69:63.
KR skoraði sjö fyrstu stig fjórða leikhlutans og komst yfir, 70:69. Var staðan svo 78:78 þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka og stefni í æsispennandi lokakafla.
Vlatko Granic kom KR í 84:81 þegar rúm mínúta var eftir. Þá skoraði Josh Jefferson þriggja stiga körfu fyrir Val og jafnaði í 84:84. Reyndust það síðustu stigin í venjulegum leiktíma og því varð að framlengja.
Valsmenn fóru betur af stað í framlengingunni og komust í 89:84. Hjálmar Stefánsson kom Val í 93:86 í framlengingunni og voru KR-ingar ekki nálægt því að jafna eftir það.
Vlatko Granic átti stórleik fyrir KR og skoraði 27 stig og tók 26 fráköst. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti ekki síður góðan leik, skoraði 22 stig, tók 10 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.
Hjá Val var Adam Ramstedt sigahæstur með 24 stig. Hann tók einnig 12 fráköst. Kári Jónsson kom næstur með 21 stig.
Meistaravellir, Bónus deild karla, 14. febrúar 2025.
Gangur leiksins:: 9:5, 14:9, 19:15, 24:18, 26:26, 26:31, 32:33, 39:37, 44:43, 54:50, 61:57, 63:69, 68:69, 72:72, 80:78, 84:84, 86:91, 89:96.
KR: Vlatko Granic 27/16 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 22/10 fráköst/13 stoðsendingar, Linards Jaunzems 20/8 fráköst, Jason Tyler Gigliotti 6, Þorvaldur Orri Árnason 5/6 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 4, Orri Hilmarsson 3, Lars Erik Bragason 2.
Fráköst: 35 í vörn, 11 í sókn.
Valur: Adam Ramstedt 24/12 fráköst/5 stoðsendingar, Kári Jónsson 21/5 fráköst/6 stoðsendingar, Joshua Jefferson 20, Kristófer Acox 10/7 fráköst/5 stoðsendingar, Kristinn Pálsson 8/6 fráköst, Frank Aron Booker 6, Hjálmar Stefánsson 4, Ástþór Atli Svalason 3/4 fráköst.
Fráköst: 33 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Gunnlaugur Briem, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.
Áhorfendur: 693