Grindavík tapaði fyrir Njarðvík, 81:74, í bikarúrslitaleik kvenna í körfubolta í Smáranum í Kópavogi í dag.
Leikurinn var spennandi til enda en Njarðvík komst í 15 stiga forskot í þriðja leikhluta.
Eftir það komu Grindvíkingar til baka og varð leikurinn æsipsennandi á lokamínútunum. Njarðvík var þó sterkari.
Tók áhlaupið of mikið toll?
„Klárlega sko, sennilega undir restina. Við vorum að fylgja leikplani og búa til mikið af opnum skotum. Varnarlega voru þær fínar. Þær komust í svona góða forystu því þær voru að hitta en ekki við.
Þetta gamla góða spennustig var kannski of hátt og við náðum ekki að jafna það út fyrr en allt of seint. Svo er mikið sem maður sér eftir. Nokkrar breytingar sem ég hefði viljað gera fyrr.
Ég er rosa stoltur af liðinu. Þetta er inn og út dæmi. Ef við hefðum hitt úr skotunum okkar hefðum við unnið þennan leik.
Þær voru að setja góð skot og voru vel stilltar inn í leikinn. Njarðvík er hörkugott lið. Þegar við vorum að loka á það sem þær eru góðar í þá gerðu þær vel annars staðar.
Svona er körfuboltinn,“ sagði Þorleifur Ólafsson þjálfari Grindavíkur í samtali við mbl.is.