Nýkrýndur bikarmeistari í körfubolta, Anna Lilja Ásgeirsdóttir, var býsna gleðileg með bikarinn sjálfan í fanginu þegar mbl.is náði af henni tali strax eftir leik í dag. Spurð út í þá tilfinningu að vera orðin bikarmeistari sagði Anna Lilja þetta.
Anna Lilja varð bikarmeistari ásamt Njarðvíkingum en liðið vann Grindavík, 81:74, í úrslitaleiknum í Smáranum í dag.
„Þetta er bara geggjað og þetta er geggjuð tilfinning,“ sagði Anna Lilja beint eftir leik.
Tók það á taugarnar að spila þennan leik í dag?
„Já, ég verð að segja það. Þetta var stressandi. Sérstaklega í endann. Eins og allir vita þá getur allt gerst í svona úrslitaleik. Við vissum að þetta yrði erfitt og við mættum aldrei hætta og það er það sem við gerðum. Við hættum aldrei og uppskárum í samræmi við það.“
Njarðvík er 15 stigum yfir í þriðja leikhluta og það mátti jafnvel heyra stuðningsmenn Njarðvíkur fagna eins og titillinn væri öruggur en þá kemur stórkostlegt áhlaup frá Grindavík sem síðan jafnar leikinn. Hvernig leið ykkur á þessum tímapunkti?
„Auðvitað var þetta erfiður kafli í leiknum og þetta var skellur. En við töluðum um að halda bara áfram að spila vörn því það er upphafið að góðri sókn og síðan halda áfram að sækja og skjóta. Við gerðum það.“
Nú er úrslitakeppnin fram undan. Er þessi titill mikilvægur fyrir sjálfstraustið og reynsluna sem þarf til að komast alla leið á Íslandsmótinu?
„Já, ég myndi segja það. Við erum margar ungar og þetta sýnir okkur að við getum þetta. Við getum unnið titla,“ sagði hæstánægð Anna Lilja í samtali við mbl.is.