Stjarnan tók á móti Njarðvík í lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Njarðvíkinga 110:103.
Stjörnumenn enda því í öðru sæti deildarinnar og Njarðvík í því þriðja en Njarðvík þurfti að vinna með 11 stigum eða meira til þess að ná öðru sætinu af Stjörnunni, enda liðin bæði með 30 stig.
Stjarnan mætir ÍR í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar og Njarðvík mætir Álftanesi.
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn vel og leiddu leikinn framan af í fyrsta leikhluta. Stjarnan komst yfir þegar um 3 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta í stöðunni 19:18 með körfu frá Ægi Þór Steinarssyni.
Stjörnumenn settu í kjölfarið niður hverja körfuna á fætur annarri og náðu að lokum 10 stiga forskoti í stöðunni 32:22 og var það staðan eftir fyrsta leikhluta.
Stjarnan hélt áfram að auka muninn í byrjun annars leikhluta og náðu 15 stiga forskoti í stöðunni 37:22. Þá kom frábær kafli hjá Njarðvíkingum þar sem þeir skoruðu 12 stig í röð og minnkuðu muninn í 3 stig í stöðunni 40:37 fyrir Stjörnuna.
Njarðvíkingum tókst að minnka muninn niður í tvö stig í stöðunni 43:41 með þriggja stiga körfu frá fyrirliðanum Mario Matasovic. Talsverður hiti var í leikmönnum í öðrum leikhluta og virtust dómarar leiksins, þeir Jakob Árni Ísleifsson, Guðmundur Ragnar Björnsson og Bjarni Rúnar Lárusson, ráða illa við verkefnið sitt í kvöld. Þurftu þeir ítrekað að leita á skjáinn.
Stjörnumenn náðu að auka forskotið í 9 stig í stöðunni 54:45 fyrir lok annars leikhluta og var það staða leiksins í hálfleik.
Hilmar Smári Henningsson skoraði 18 stig og tók 5 fráköst í fyrri hálfleik fyrir Stjörnuna. Dwayne Lautier-Ogunleye skoraði 14 stig fyrir Njarðvík og tók Mario Matasovic 6 fráköst í fyrri hálfleik.
Stjarnan byrjaði seinni hálfleik á að komast 11 stigum yfir í stöðunni 56:45. Eftir það fóru Njarðvíkingar að saxa niður forskot Stjörnunnar og náðu að lokum að komast yfir í stöðunni 63:63.
Njarðvíkingar náðu síðan forskoti í stöðunni 65:63 með körfu frá Veigari Páli Alexandersyni og leiddu Njarðvíkingar leikhlutann allt þangað til í lokasókn Stjörnunnar þegar Ægir Þór Steinarsson setti gríðarlega mikilvæga þriggja stiga körfu og jafnaði í stöðunni 78:78 og var það staðan fyrir fjórða leikhluta.
Stjörnumenn settu Shaquille Rombley inn á í fjórða leikhluta en hann kom sér í villuvandræði í upphafi seinni hálfleiks. Njarðvíkingar byrjuðu fjórða leikhlutann á því að komast yfir með tveggja stiga körfu frá Dominykas Milka.
Njarðvíkingar sóttu hart á Stjörnuna og náðu 12 stiga forskoti í stöðunni 98:86 fyrir Njarðvík. Stjörnumenn ætluðu ekki að gefa annað sætið eftir og minnkuðu muninn jafn harðan. Þurfti Njarðvík að vinna með 11 stigum til að stela öðru sætinu af Stjörnunni. Stjarnan náði að gera áhlaup á Njarðvíkinga þegar lítið var eftir af leiknum og minnkuðu muninn í 6 stig í stöðunni 105:99 fyrir Njarðvík og var 18,8 sekúndum eftir.
Enduðu leikar því þannig að Njarðvík vann leikinn en ekki nægilega stórt til að ná öðru sætinu.
Hilmar Smári Henningsson skoraði 26 stig fyrir Stjörnuna. Jase Febres tók 10 fráköst.
Dwayne Lautier-Ogunleye skoraði 27 stig fyrir Njarðvík og Mario Matasovic tók 8 fráköst.
Umhyggjuhöllin, Bónus deild karla, 27. mars 2025.
Gangur leiksins:: 6:8, 13:13, 21:20, 32:22, 37:25, 40:37, 45:43, 54:45, 56:49, 60:62, 69:74, 78:78, 80:85, 83:91, 91:99, 103:110.
Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 26/5 fráköst/7 stoðsendingar, Hilmar Smári Henningsson 26/5 fráköst, Orri Gunnarsson 20/6 fráköst, Jase Febres 17/10 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 9/4 fráköst, Kristján Fannar Ingólfsson 5.
Fráköst: 23 í vörn, 9 í sókn.
Njarðvík: Dwayne Lautier-Ogunleye 27/6 fráköst/5 stoðsendingar, Khalil Shabazz 22/5 fráköst/6 stoðsendingar, Mario Matasovic 21/8 fráköst, Dominykas Milka 16/7 fráköst, Brynjar Kári Gunnarsson 15, Veigar Páll Alexandersson 8, Snjólfur Marel Stefánsson 1.
Fráköst: 27 í vörn, 4 í sókn.
Dómarar: Jakob Árni Ísleifsson, Guðmundur Ragnar Björnsson, Bjarni Rúnar Lárusson.
Áhorfendur: 350