Þórskonur unnu Val 72:60 í 3. leik liðanna um sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta.
Valur hafði unnið tvo fyrstu leikina og gat komist áfram með sigri í kvöld. Nú er staðan í einvíginu 2:1 fyrir Val og næst leika liðin á Hlíðarenda á pálmasunnudag.
Þórsarar, sem voru lengi vel að keppa um deildarmeistaratitilinn, gáfu eftir á lokasprettinum í deildinni og höfnuðu að lokum í 4. sæti. Norðankonur hafa átt erfitt í síðustu leikjum eftir að tveir af sex sterkustu leikmönnum þeirra heltust úr lestinni. Liðið var ógnarsterkt á tímabilinu og vann m.a. tíu leiki í röð þegar best gekk. Síðan þá hefur liðið aðeins unnið einn leik af átta í deildarkeppninni.
Esther Fokke var aftur komin í leikmannahóp Þórs í kvöld. Hvort það hafi gert gæfumuninn fyrir heimakonur skal ósagt látið en Þórskonur voru frábærar í kvöld og þær voru ekkert að fara í sumarfrí.
Eftir jafnar upphafsmínútur má segja að Þór hafi smám saman sigið fram úr. Þór var mest 15 stigum yfir í fyrri hálfleik þar sem hver leikmaðurinn á fætur öðrum lagði sitt á vogaskálarnar. Varnir beggja liða voru nokkuð sterkar og dómarar leyfðu harðan leik. Það var helst sóknarleikur Vals ven kom þeim í klandur en lykilleikmenn í Valsliðinu voru nokkrir vel frá sínu besta. Alyssa Cerino komst ekki á blað í fyrri hálfleik og Jiselle Thomas hafði allt á hornum sér.
Staðan í hálfleik var 39:25 fyrir vel studdar Þórskonur og öll stemning þeirra megin. Valskonur náðu vopnum sínum í þriðja leikhluta og náðu að hrella heimakonur. Heimakonur lentu strax í miklum villuvandræðum þar sem Maddie Sutton og Amandie Toi fengu fjórðu villur sínar. Esther Fokke bættist svo í þeirra hóp á leikhlutaskiptunum. Þór hékk á forskoti eins og hundur á roði og þegar lokaleikhlutinn hóst var staðan 53:45 fyrir Þór.
Valskonur voru áfram sterkari og önduðu ofan í hálsmál Þórskvenna hvað eftir annað. Spennustigið var hátt og ákvarðanataka leikmanna stundum slæm. Þór stóð af sér mesta áhlaupið og náði að breikka bilið á ný. Staðan var 66:56 þegar fjórar mínútur lifðu. Valur minnkaði strax muninn en heimakonur stóðust áhlaup gestanna og lönduðu dísætum iðnaðarsigri.
Liðin mætast í fjórða leiknum á Hlíðarenda kl. 19 á sunnudag.
Höllin Ak, Bónus deild kvenna, 09. apríl 2025.
Gangur leiksins:: 5:2, 8:10, 16:13, 21:13, 25:15, 27:20, 37:22, 39:25, 42:31, 46:36, 51:41, 53:45, 56:53, 64:56, 66:60, 72:60.
Þór Ak.: Emma Karólína Snæbjarnardóttir 18/6 fráköst, Madison Anne Sutton 15/15 fráköst, Amandine Justine Toi 12/9 stoðsendingar, Eva Wium Elíasdóttir 11/4 fráköst, Esther Marjolein Fokke 8/4 fráköst, Hrefna Ottósdóttir 3, Katrín Eva Óladóttir 3, Hanna Gróa Halldórsdóttir 2.
Fráköst: 30 í vörn, 7 í sókn.
Valur: Dagbjört Dögg Karlsdóttir 18/4 fráköst, Ásta Júlía Grímsdóttir 15/8 fráköst, Alyssa Marie Cerino 10/6 fráköst, Jiselle Elizabeth Valentine Thomas 7/7 stoðsendingar, Guðbjörg Sverrisdóttir 4, Sara Líf Boama 4/9 fráköst, Anna Maria Kolyandrova 2/4 fráköst.
Fráköst: 24 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Stefán Kristinsson, Guðmundur Ragnar Björnsson.
Áhorfendur: 170