Khabib Nurmagomedov sigraði Conor McGregor með uppgjafartaki í Las Vegas og hélt meistarabeltinu í léttvigt í einum stærsta UFC-bardaga sögunnar í nótt. Rússinn lét þó sigurinn ekki nægja er hann veittist að hornamönnum Írans á meðan hans eigin aðstoðarfélagar réðust að McGregor að bardaganum loknum.
Mikil illindi hafa verið milli þessara bardagakappa undanfarin misseri eða allt frá því að McGregor kastaði kerru úr járni í gegnum gluggann á liðsrútu Nurmagomedov. McGregor var í kjölfarið handtekinn og dæmdur til þess að sinna samfélagsþjónustu í fimm daga. Þeir áttu svo í miklum deilum á blaðamannafundum fyrir bardagann þar sem McGregor, sem er þekktur fyrir íburðarmikla og skrautlega framkomu, gerði meðal annars gys að trú og föðurlandi Nurmagomedov.
Þegar loks kom að bardaganum sjálfum voru yfirburðir Nurmagomedov þó miklir. McGregor átti fullt í fangi með ósigraðan andstæðing sinn en Írinn var að berjast í sínum fyrsta UFC bardaga í tvö ár, eftir að hafa mætt Floyd Mayweather í hnefaleikum á síðasta ári.
Nurmagomedov vann að lokum sanngjarnan og sannfærandi sigur með áðurnefndu uppgjafartaki, snemma í fjórðu lotu, en það sem gerðist eftir á mun svo sannarlega draga dilk á eftir sér. Rússinn hellti sér yfir andstæðing sinn áður en hann stökk yfir girðingu bardagabúrsins til að ráðast að Dillon Danis, æfingafélaga McGregor, en sá sendi Rússanum nokkur vel valin orð.
Á meðan á þessu öllu stóð og ótal öryggisvarða og lögregluþjóna reyndu að stía þeim Nurmagomedov og Danis í sundur ákváðu tveir liðsfélagar Rússans að ráðast að McGregor aftan frá en þá mátti sjá kýla Írann sem reyndi að verja sig, nýbúinn að tapa bardaganum um titilinn.
Báðum bardagaköppunum var að lokum fylgt úr höllinni af lögreglunni í Nevada en Nurmagomedov fékk meistarabeltið ekki afhent í bardagahringnum eins og venjan er af ótta við að fjölmargir stuðningsmenn McGregor myndu bregðast illa við. Sjá mátti marga þeirra fleygja drykkjarílátum sínum í átt að Nurmagomedov er hann yfirgaf höllina.
Dana White, forseti UFC, staðfesti á blaðamannafundi eftir á að Nurmagomedov eigi yfir höfði sér langt keppnisbann en Íþróttanefnd Nevada fylkis í Bandaríkjunum hefur málið til rannsóknar. Þá voru liðsfélagar Rússans, sem veittust á McGregor, allir handteknir og munu þeir aldrei keppa í UFC að sögn White.
Hann vildi ekki tjá sig um það hvort Nurmagomedov yrði sviptur meistarabeltinu en sagði að slík ákvörðun yrði tekin í kjölfar úrskurðar Íþróttanefndar Nevada sem þykir ansi hörð í horn að taka. Þá starfar nefndir undir stjórn Brian Sandoval, ríkisstjóra Nevada, sem þurfti að flýja T-Mobile höllina er ólætin brutust út.
Nurmagomedov mætti svo sjálfur á blaðamannafundinn þar sem hann svaraði engum spurningum blaðamanna en hélt stutta eintölu. Þar bað hann alla í Las Vegas afsökunar á atburðum kvöldsins án þess þó að taka nokkra ábyrgð á því sem gerðist.
„Af hverju viljið þið tala um að ég hoppaði út úr búrinu en ekki hvernig McGregor talaði um trúna mína, landið mitt og föður minn?“ spurði tilfinningaríkur Nurmagomedov meðal annars áður en hann lét sig hverfa með meistarabeltið sjálft en hvort hann fái að halda því á eftir að koma í ljós.