Íslendingar sendu 27 íþróttamenn til keppni á Ólympíuleikunum í London sem fram fóru 27. ágúst til 12. ágúst. Var það mun meiri keppendafjöldi en frá öðrum þjóðum sem eru með íbúafjölda undir milljón.
Með því að smella á renninginn hér fyrir ofan greinina má sjá ítarlega myndasyrpu frá leikunum í sumar með myndum Kjartans Þorbjörnssonar, Golla, ljósmyndara Morgunblaðsins og mbl.is.
Ísland átti sjö keppendur í sundi. Sarah Blake Bateman setti Íslandsmet í 100 metra flugsundi og hún var næst því að komast í undanúrslit af íslenska sundfólkinu þegar hún hafnaði í 16. - 18. sæti í 50 metra skriðsundi. Þar þurfti hún að fara í umsund þar sem hún og tvær aðrar voru hnífjafnar í 16. sætinu sem er síðasta sæti inn í undanúrslit. Sarah tapaði umsundi í fyrsta skipti á ferlinum en hún hafði synt nokkur slík á ferli sínum í háskólasundinu í Bandaríkjunum.
Sarah var fórnarlamb aðstæðna því hún keppti í sögulegu fjórsundi aðeins átta mínútum áður en umsundið fór fram. Fjórsundið var sögulegt vegna þess að Ísland hafði aldrei áður átt sveit í boðsundi á Ólympíuleikum en í sveitinni voru auk Söruh þær Eygló Ósk Gústafsdóttir, Eva Hannesdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir. Þær höfnuðu í 15. sæti og syntu í riðli með sveitum frá sundstórveldunum Bandaríkjunum og Ástralíu. Eygló setti Íslandsmet í 100 metra baksundi í boðsundinu og Eva bætti tíma sinn frá því á EM í Ungverjalandi þegar sveitin náði ólympíulágmarkinu.
Jakob Jóhann Sveinsson keppti á sínum fjórðu Ólympíuleikum og náði því fyrir þrítugt sem er merkilegt afrek. Hann náði ekki að sýna sitt besta frekar en Hrafnhildur Lúthersdóttir enda keppti hún á leikunum með brotið bein í olnboga. Árni Már Árnason synti á nákvæmlega sama tíma og hann gerði í Peking árið 2008 í 50 metra skriðsundi en þá var það eina Íslandsmetið á leikunum í Peking. Anton Sveinn McKee fékk dýrmæta reynslu á leikunum og ef fram heldur sem horfir er hann maður framtíðarinnar í lauginni rétt eins og Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eina liðið sem vann Ólympíumeistarana
Handboltalandsliðið lék við hvern sinn fingur á leikunum en féll engu að síður úr keppni í 8-liða úrslitum. Liðið tapaði ekki neinum af sex leikjum sínum í venjulegum leiktíma en tapaði eftir tvær framlengingar þegar komið var í útsláttarkeppnina. Liðið vann alla fimm leiki sína í riðlakeppninni. Öruggir sigrar unnust gegn Argentínu, Túnis og Bretlandi en leikirnir gegn Svíþjóð og Frakklandi voru spennandi. Íslendingar unnu Svía í fyrsta skipti í lokakeppni stórmóts síðan 1964 og urðu eina liðið til að vinna Frakka á leikunum því þeir unnu gullverðlaun rétt eins og þeir gerðu í Peking.
Leikurinn gegn Ungverjum í átta liða úrslitum var eins og löng spennusaga en Ungverjar fögnuðu að loknum 80 mínútna leik og það varð hlutskipti Íslendinga að halda heim á leið en Ungverjar spiluðu um verðlaun. Aron Pálmarsson var atkvæðamestur í íslenska liðinu á leikunum og var valinn í úrvalslið mótsins. Guðjón Valur Sigurðsson var enn einu sinni frábær fyrir íslenska landsliðið á stórmóti og Hreiðar Levý Guðmundsdóttir var hlutfallslega með bestu markvörsluna á leikunum samkvæmt tölfræði mótshaldara.
Að leikunum loknum var útlit fyrir að leikurinn gegn Ungverjum yrði síðasti landsleikur fyrirliðans Ólafs Stefánssonar en ekki er útséð með það þar sem hann mun væntanlega spila á HM á Spáni í byrjun nýs árs. Guðmundur Þórður Guðmundsson og Óskar Bjarni Óskarsson hættu að þjálfa landsliðið að leikunum loknum.
Spennuleikur hjá Rögnu gegn sterkum andstæðingi
Ragna Ingólfsdóttir sýndi hvað í henni býr þegar hún varð fyrsta íslenska konan til að vinna badmintonleik á Ólympíuleikum. Hún vann andstæðing sinn frá Litháen örugglega 2:0. Ragna féll úr keppni eftir hörkuleik á móti andstæðingi í 20. sæti heimslistans sem áður var í kínverska landsliðinu.
Ragna átti svolítið erfitt uppdráttar til að byrja með í leiknum en reif sig eftirminnilega upp úr því og spennan í margframlengdri annarri lotunni var með ólíkindum en þar var Ragna um tíma þremur stigum yfir. Ragna varð þó að sætta sig við 0:2 tap en hefði verið til alls líkleg í oddalotu því andstæðingurinn Jie Yao frá Hollandi var farin að þreytast enda nokkuð eldri en Ragna. Ekki verður hjá því komist að minnast á furðulegar aðstæður sem Ragna lenti í fyrir síðari leikinn í Wembley-höllinni. Þá dróst leikurinn á undan hennar von úr viti þar sem keppendur í tvíliðaleik reyndu að tapa leiknum til að fá hagstæðari andstæðing í næstu umferð. Fyrir vikið þurfti Ragna að bíða í 75 mínútur eftir þessum mikilvægasta leik ferilsins. Ragna tilkynnti að leiknum loknum að hún væri hætt keppni 29 ára gömul og kom sú yfirlýsing flestum íþróttaáhugamönnum á óvart.
Ásgeir Sigurgeirsson stimplaði sig hressilega inn sem ólympíufari þegar hann náði 14. sæti í skotfimi. Virkilega góður árangur hjá Ásgeiri en hann var nálægt því að komast í átta manna úrslit. Hann var einnig yfir ólympíulágmarki í annarri grein þó hann hafi takmörkuð tækifæri til að æfa hana á Íslandi. Hann gæti átt nokkra Ólympíuleika eftir því afreksmenn í skotfimi geta verið í fremstu röð fram undir fimmtugt.
Júdókappinn Þormóður Árni Jónsson náði ekki að fylgja eftir ágætum árangri sínum í Peking því hann rakst á 160 kg vegg strax í fyrstu umferð. Þá tapaði hann fyrir Brasilíumanni sem var í 3. sæti heimslistans. Fyrirkomulagið í júdóinu er miskunnarlaust að þessu leytinu til því hann fékk ekki uppreisnarglímu eins og Bjarni Friðriksson fékk sælla minninga árið 1984. Júdóið ætti því kannski að gera breytingar eins og badmintonið en þar var nú keppt í þriggja manna riðlum í stað gamla útsláttarfyrirkomulagsins.
Ásdís stórbætti Íslandsmetið í fyrsta kasti
Ólympíuleikarnir fara inn á Ólympíuleikvanginn þegar keppni í frjálsum íþróttum hefst. Óðinn Björn Þorsteinsson varð fyrstur Íslendinga til að keppa á þessum glæsilega leikvangi en hann var langt frá sínu besta og komst ekki í úrslit.
Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir nýtti sér reynsluna frá því í Peking og blómstraði á réttu augnabliki. Stórbætti eigið Íslandsmet í undankeppninni og keppti í magnaðri stemningu fyrir framan 80 þúsund manns. Hún varð í 11. sæti í úrslitunum með kast upp á 59,08 metra en í undankeppninni kastaði hún 62,77 metra strax í fyrsta kasti og bætti Íslandsmetið um 140cm.
Kári Steinn Karlsson keppti síðastur fyrir Íslands hönd á leikunum. Af kunnri keppnishörku tók Kári fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum og hafnaði í 42. sæti þó hann hafi verið með 97. besta árangurinn fyrirfram. Afríkubúar eru aðsópsmiklir í maraþonhlaupum og ef horft er til Evrópubúa þá varð Kári sautjándi í þeim hópi. Hann hljóp með steinvölu í skónum en lét það ekki á sig fá þó hún hafi skilið eftir sig myndarlega blöðru.
Þjálfarar gerðu það gott
Þjálfarinn Þórir Hergeirsson vann til gullverðlauna á öðrum Ólympíuleikunum í röð þegar Noregur sigraði í handboltakeppni kvenna. Þórir var aðstoðarþjálfari Noregs í Peking árið 2008 en var nú aðalþjálfari liðsins. Stórkostlegur árangur hjá Þóri.
Vésteinn Hafsteinsson fékk einnig gullverðlaun sem þjálfari í Peking þegar Gerd Kanter sigraði í kringlukasti. Vésteinn fékk aftur medalíu í London þegar Kanter vann til bronsverðlauna. Íslenskir þjálfarar gerðu það því verulega gott á leikunum í London.
Sé árangurinn gerður upp á heildina litið þá vann Ísland ekki til verðlauna á leikunum en fékk verðlaun á leikunum í Peking. Íslandsmetunum fjölgaði hins vegar en þau urðu þrjú í London, tvö í sundi og eitt í frjálsum, en í Peking var eitt Íslandsmet sett.