Anton Sveinn McKee keppti fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í Ríó í dag þegar hann stakk sér til sunds í undanrásum 100 metra bringusunds. Hann komst ekki áfram í undanúrslitin og hafnaði í 35. sæti.
Sjá einnig: ÓL-farinn Anton Sveinn McKee
Anton synti á 1:01,84 mínútum sem er um 1,3 sekúndum frá Íslandsmeti hans. Hefði hann þurft að synda á 1:00,25 sekúndum til að ná inn í undanúrslitin.
Anton var í riðli númer 3 af 6. Sextán fljótustu keppendurnir af þeim 46 sem skráðir eru til keppni komust í undanúrslitin sem fara fram í nótt.
Bretinn Adam Peaty byrjaði með þvílíkum látum og setti heimsmet; 57,55 sekúndur, en ekki er algengt að heimsmet falli í undanrásum.
18.27 Anton hafnaði í 35. sæti í sundinu og er úr leik í 100 metra bringusundi en á eftir að keppa síðar í sinni sterkustu grein: 200 metra bringusundi. 1:00,26 mínútur var lakasti tíminn inn í undanúrslitin eða 16. sætið í undanrásum.
18.24 Jáááááá heimsmet í undanrásum. Það eru tíðindi. Bretinn Adam Peaty sló heimsmetið og synti á 57,55 sekúndum. Sá mætir í formi á leikana. Fyrsta heimsmetið í sundkeppni þessara leika. Varð langfyrstur í sjötta og síðasta riðlinum.
18.21 Skemmtileg stemning í kringum fimmta riðilinn því þar varð heimamaðurinn Franca fyrstur í bakkann á 59,01 sekúndu og voru þrír undir mínútu í riðlinum.
18.18 Japaninn Koseki varð fyrstur í fjórða riðli á afar góðum tíma 58,91 sekúndum og setti tvo Bandaríkjamenn aftur fyrir sig. Allir í þessum riðli syntu hraðar en Anton og fjórir voru undir mínútu.
18.15 - Jæja, ekki gekk þetta sem skyldi. Anton kom í bakkann á 1:01,84 og varð sjöundi í riðlinum. Hann var fimmti eftir fyrri 50 metrana, á 28,67 sekúndum. Það er alveg ljóst að þetta dugar ekki til að komast í undanúrslit. Ég ætla að hitta á kappann og viðtal við hann birtist hér á mbl.is á eftir.
18.13 - Okkar maður skvettir á sig smá vatni úr lauginni og er klár!
18.13 - Riðli tvö lokið. Anton er næstur! Fyrsti maður í riðli tvö kom í bakkann á 1:00,71 mínútu.
18.10 - Riðli eitt er lokið. Þar synti fyrsti maður á 1:02,36 mínútu. Lítil samkeppni við Anton þarna, eins og búast mátti við.
18.07 - Þá er 100 metra bringusund karla næst á dagskrá. Verið er að kynna keppendur í 1. riðli. Það styttist í Anton!
18.05 - Ungverska sunddrottningin Katinka Hosszú var afskaplega nálægt því að bæta heimsmetið í 400 metra fjórsundi rétt í þessu. Ótrúleg sundkona þarna á ferð sem á meistaratitilinn vísan í greininni í kvöld, og ég er viss um að þá fellur heimsmetið. Hún verður einnig á ferðinni í greinum Eyglóar Óskar Gústafsdóttur; 100 og 200 metra baksundi.
18.00 - Í riðli Antons er Ástralinn Joshua Palmer skráður með besta tímann, 1:00,51 mínútu, en þeir Anton, Litháinn Andrius Sidlauskas og Kólumbíumaðurinn Jorge Mario Valdés eiga allir sama tíma, 1:00,53. Þetta verður því spennandi sund, það má fastlega búast við því.
17.50 - Nú fer að styttast í að fyrsti riðill í 100 metra bringusundinu fari af stað. Hér eru menn mistaugaveiklaðir og áhorfendur tóku andköf áðan þegar spænskur keppandi stakk sér of snemma af stað, en klöppuðu svo vel fyrir honum og reyndu að stappa í hann stálinu. Anton býr að því að hafa keppt á einum Ólympíuleikum, og fleiri stórmótum á undanförnum árum. Það er einfaldlega mjög dýrmætt.
17.45 - Það er fín stemning hérna í sundhöllinni, en hún er mjög góð þegar brasilískir keppendur mæta á svæðið. Heimamenn eru ástríðufullir íþróttaáhugamenn og styðja sitt fólk vel.
17.40 - Það lá vel á Antoni þegar ég ræddi við hann í fyrradag. „Ég er örugglega í besta formi sem ég hef verið í, svo ég er bara mjög spenntur en einnig rólegur og yfirvegaður yfir þessu. Mér finnst ég aldrei hafa verið svona tilbúinn, með svona mikla stjórn á hlutunum, eins kjánalega og það kann að hljóma,“ sagði hann meðal annars.
17.30 - Anton syndir í riðli 3 og er á braut 6. Einn keppandi í riðlinum er skráður með betri tíma, örlítið betri en Anton, en riðlar 4, 5 og 6 eru sterkari.
17.20 - Íslandsmet Antons er 1:00,53 mínúta frá því á HM í Kazan fyrir ári síðan. Hann er í 26. sæti yfir bestu skráðu tímana fyrir mótið. Við gerum okkur samt vonir um að hann komist í undanúrslit, en Anton er sterkari í 200 metra bringusundinu.
17.10 - Góðan dag, kæru lesendur, og verið velkomnir í þessa beinu textalýsingu úr hinni glæsilegu ólympíusundhöll Ríó-búa, þar sem við fylgjumst með framgöngu Antons Sveins McKee í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó.