Hrafnhildur aftur í undanúrslit

Hrafnhildur Lúthersdóttir vann stærsta afrek íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum þegar …
Hrafnhildur Lúthersdóttir vann stærsta afrek íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum þegar hún náði 6. sæti í 100 metra bringusundi. mbl.is/Árni Sæberg

Hrafnhildur Lúthersdóttir keppir aftur í undanúrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó um kl. 2 í nótt að íslenskum tíma, eftir að hafa synt á 2:24,43 mínútum í undanrásum 200 metra bringusunds í dag.

Hrafnhildur synti í þriðja riðli og varð í fjórða sæti í honum, en þá var strax ljóst að hún kæmist í undanúrslitin þó að einn átta manna riðill væri eftir. Hrafnhildur átti 10. besta tímann alls, en hin danska Rikke Möller Pedersen, heimsmethafi, náði bestum tíma en hún synti á 2:22,72 mínútum.

Íslandsmet Hrafnhildar er 2:22,96 mínútur, frá því á EM í London í maí, og var hún skráð í mótið með 11. besta tímann. Fyrstu 16 keppendurnir í undanrásunum komust í undanúrslitin sem fram fara um klukkan 2 í nótt að íslenskum tíma.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

-----------------

17.05 - Fjórði og síðasti riðillinn búinn. Þarna syntu fjórar hraðar en Hrafnhildur svo hún varð í 10. sæti í undanrásunum. Vel gert! Ég ætla að skella mér í viðtal við Hrafnhildi og þakka fyrir að sinni. Ég byrja svo lýsingu frá undanúrslitunum um kl. 1 í nótt.

17.00 - Hrafnhildur endaði fjórða í sínum riðli á 2:24,43 mínútum. Hún er örugg í undanúrslit þó að einn riðill sé eftir.

16.58 - Hrafnhildur var fljót af stað og þriðja eftir 50 metra. Hún var einnig þriðja eftir 100 á 1:09,49.

16.56 - Þá er Hrafnhildur mætt á bakkann! Hún syndir á braut 6 eins og áður segir.

16.54 - Riðill tvö búinn. Þarna syntu meðal annars heimsmethafinn Rikke Möller Pedersen frá Danmörku, og hin bandaríska Lilly King sem vann 100 metra sundið. Pedersen var fyrst í bakkann á 2:22,72 mínútum. Næst var Molly Renshaw á 2:23,37 mínútum. Þriðji besti tíminn var 2:24,55. King varð í fimmta sæti í riðlinum.

16.49 - Fyrsti riðill búinn. Besti tíminn þar var 2:27,98 mínútur. Engin þarna að berjast við Hrafnhildi um sæti í undanúrslitum.

16.44 - Hér voru undanrásir í 200 metra baksundi karla að klárast og höllin lék á reiðiskjálfi vegna þess að brasilískur keppandi var að synda. Og hann komst áfram, sem vakti mikla gleði hérna! Heimamenn standa með sínu fólki. Næst á dagskrá: Undanrásirnar í grein Hrafnhildar.

16.40 - Hrafnhildur hefur sjálf sagt að hún sé sterkari í 200 metra bringusundinu, en 100 metra sundinu. Það gefur góð fyrirheit. Hún hefur þó náð betri árangri í 100 metra sundinu hingað til, fékk silfur í því og 50 metra bringusundi á EM í maí, en brons í 200 metra sundinu.

16.30 - Hin mjög svo umdeilda Julia Efimova frá Rússlandi syndir í fjórða og síðasta riðlinum. Efimova synti í úrslitum 100 metra sundsins með Hrafnhildi og tók silfrið, en margir eru á því að hún ætti ekki að vera með á leikunum vegna sinnar lyfjamisnotkunarsögu. Efimova er skráð inn með tímann 2:21,41.

16.20 - Hrafnhildur syndir á 6. braut í 3. riðlinum. Þar eru þrír keppendur með betri tíma en hún; þær Chloe Tutton frá Bandaríkjunum (2:22,34), Taylor McKeown frá Ástralíu (2:21,45) og Rio Kaneto frá Japan (2:19,65). Tími Kaneto er sá besti á árinu, og sá fimmti besti í sögunni.

16.10 - Afrek Hrafnhildar aðfaranótt þriðjudags er eitt það allra stærsta sem íslenskur íþróttamaður hefur unnið á Ólympíuleikum. Aðeins átta Íslendingar höfðu áður náð 6. sæti í sinni grein eða betri árangri, ef horft er til einstaklingsgreina. Þetta er næstbesti árangur sem Íslendingur hefur náð í sundi á þessu stærsta sviði íþróttanna.

16.00 – Í þessari lýsingu fylgjumst við með Hrafnhildi Lúthersdóttur í 200 metra bringusundinu. Þetta er önnur grein hennar á leikunum í Ríó en eins og alþjóð ætti að vita varð hún í 6. sæti í 100 metra bringusundi.

16.00 – Góðan dag kæru lesendur og verið velkomnir í beina textalýsingu héðan úr ólympíusundhöllinni í Ríó. Fólk blotnar víðar en í lauginni í Ríó í dag, því hér rignir eins og á meðalhaustdegi undir Eyjafjöllum, en það skiptir nú ekki máli hérna inni í höllinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert