Julia Efimova er 24 ára gömul rússnesk sundkona sem keppir í bringusundi og er á meðal fremstu bringusundkvenna í heimi. Hún hefur unnið til 10 gullverðlauna á Evrópu- og heimsmeistaramótum en verðlaunapeningarnir sem hún hefur unnið á áðurnefndum mótum eru alls 19.
Hún hefur ekki unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikum en vann eitt brons í London fyrir fjórum árum og hafnaði í öðru sæti í 100 metra bringusundi kvenna á leikunum sem standa nú yfir í Ríó de Janeiro í Brasilíu. Efimova getur bætti einni medalíu í viðbót í safnið í Ríó en nú síðdegis tekur hún þátt í undanriðlum 200 metra bringusunds kvenna, þar sem Hrafnhildur Lúthersdóttir verður einnig meðal keppenda.
Efimova vakti fyrst athygli árið 2008, 16 ára gömul, þegar hún hafnaði í fjórða sæti í 100 metra bringusundi og fimmta sæti í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Peking í Kína.
Þrátt fyrir að hafa unnið til fjölda verðlauna er Efimova líklega þekktust fyrir lyfjamisnotkun. Fyrir tveimur árum féll hún á lyfjaprófi en hún hafði neytt lyfsins DHEA. Umrætt lyf er steralyf og það er á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins. Hún var vegna þessa dæmd í keppnisbann en bannið var afturvirkt. Efimova var því á sundlaugabakkanum frá 31. október 2013 til 28. febrúar 2015.
Hún stakk sér tvíefld til baka í djúpu laugina að loknu banni og tryggði sér heimsmeistaratitilinn í 100 metra bringusundi, á heimavelli í Kazan í Rússlandi í fyrra.
En þetta er ekki allt, því Efimova var úrskurðuð í bann í byrjun árs vegna neyslu meldóníums, sama efnis og tennisstjarnan Maria Sharapova og fleiri hafa neytt. Meldóníum er hjartalyf sem sett var á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins um áramótin. Efimova losnaði hins vegar úr banninu eftir áfrýjun, alla vega um tíma, vegna óvissu sem ríkir um það hve lengi meldóníum finnst í líkama eftir neyslu. Alþjóðasundsambandið aflétti banninu eftir ráðleggingar þess efnis frá Alþjóðalyfjaeftirlitinu en efnið er nú til rannsóknar. Upphaflega var henni bannað að taka þátt í Ólympíuleikunum en áðurnefndir óvissuþættir urðu til þess að hún losnaði úr banninu og syndir Efimova nú af kappi á suðurhveli jarðar. Efimova kveðst sjálf hafa verið hætt að taka meldóníum áður en efnið var sett á bannlista. Efnið hafi hins vegar enn þá verið í líkama hennar og því hafi hún fallið á lyfjaprófinu í byrjun árs.
Hin bandaríska Lilly King varð ólympíumeistari í 100 metra bringusundi aðfaranótt þriðjudags og Efimova önnur. King gagnrýndi Efimovu harðlega bæði fyrir og eftir úrslitin í 100 metrunum og fannst sú rússneska ekki eiga að fá að vera á meðal keppenda. „Held ég að einhver sem hefur verið staðinn að því að svindla ætti að taka þátt? Nei,” sagði King, en hún kvaðst eingöngu segja það sem aðrir væru að hugsa. Ég sagði það sem allir eru að hugsa. Fólk er ánægt með að ég þori að segja það sem það hugsar og ég kann að meta stuðninginn sem ég fæ,” bætti King við.
Sjálfri þykir þeirri rússnesku meðferðin og viðbrögð keppinauta hennar heldur kuldaleg. Áhorfendur í sundhöllinni púa á hana og aðrir sundkappar forðast augnsamband og spjall við Efimovu.
„Ég gerði ein mistök og var dæmd í 16 mánaða keppnisbann. Seinna skiptið var ekki mér að kenna,” sagði Efimova og átti erfitt með að halda aftur af tárunum eftir úrslitin í 100 metra bringusundinu.
„Ef Alþjóðalyfjaeftirlitið lýsir því yfir á morgun að þeir ætli að banna jógúrt eða dýraprótein eða hvaða efni sem fólk notar hvað gerist þá? Efnið er enn til staðar í líkamanum í sex mánuði og er það þá þér að kenna ef þú ert tekin(n) í lyfjapróf tveimur mánuðum eftir að hinar nýju reglur taka gildi?” spurði Efimova.
„Dagblöð og sjónvarp finna sögur sem þau þurfa að segja en það þýðir ekki að þær séu sannar. Það er sorglegt og ég er mjög leið yfir því að sumir íþróttamenn trúi því ekki að ég er ekki á neinum ólöglegum efnum. Þau geta ekki ímyndað sér hvernig það er að vera í mínum sporum,” sagði Efimova enn fremur en hún telur málið vera pólitískt vegna þess að hún er frá Rússlandi.
„Það er mjög pirrandi þegar pólitísk mál blandast íþróttum. Ég veit ekki hvað gerist í hinum pólitíska heimi. Ég hélt að kalda stríðið væri liðið en það virðist eiga að nota íþróttir til að hefja það aftur. Ég veit hins vegar að ég hef stundað æfingar í Bandaríkjunum undanfarin fjögur ár og hef kannski dvalið í Rússlandi í einn mánuð ár hvert. Þeir finna ekki leiðir til að sigra Rússa og kannski er ætlunin að nota íþróttamenn en þetta er í það minnsta ekki sanngjarnt.”
Hvað sem öllu líður er ljóst að Julia Efimova stingur sér aftur til sunds núna síðdegis þegar undanrásir í 200 metra bringusundi fara fram. Að öllu óbreyttu ætti hin umdeilda rússneska sundkona að komast í úrslitin sem fara fram aðfaranótt föstudagsins næsta. Spurningin er hvort hún nái að snúa á Lilly King í það skiptið.