Hrafnhildur hafnaði í 11. sæti

Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur skráð sig rækilega í sögubækurnar með frammistöðu …
Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur skráð sig rækilega í sögubækurnar með frammistöðu sinni í Ríó. mbl.is/Eggert

Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur lokið keppni á Ólympíuleikunum í Ríó en hún synti í undanúrslitum 200 metra bringusunds í nótt.

Hrafnhildur synti á 2:24,41 mínútu og varð í 5. sæti í sínum riðli. Hún varð í 11. sæti alls, en Taylor McKeown frá Ástralíu synti hraðast, á 2:21,69 mínútum. Kierra Smith frá Kanada varð áttunda og síðust inn í úrslitin á 2:22,87 mínútum. Íslandsmet Hrafnhildar frá því á EM í London í maí er 2:22,96 mínútur.

Hrafnhildur hafði áður hafnað í 6. sæti í 100 metra bringusundi, sem er besti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

---------------------------

02.23 - Þessi riðill var mun fljótari. Sex syntu hraðar en Hrafnhildur sem endar því í 11. sæti. Ég þakka fyrir í nótt og minni á að Eygló Ósk Gústafsdóttir syndir í undanrásum 200 metra baksunds á morgun. Viðtal við Hrafnhildi birtist hér á mbl.is síðar í nótt.

02.17 - Það mega í mesta lagi þrjár synda undir 2:24,41 í þessum seinni riðli. Ég er ekki bjartsýnn, því miður.

02.16 - Nú er bara að sjá hverju þessi tími skilar. Seinni riðillinn fer brátt af stað. Er þátttöku Hrafnhildar á Ólympíuleikunum í Ríó lokið eða syndir hún til úrslita annað kvöld?

02.15 - Hrafnhildur synti örlítið hraðar en í undanrásunum, eða á 2:24,41. Hún varð í 5. sæti í riðlinum, og var einnig í 5. sæti eftir fyrri 100 metrana.

02.11 - Nánast ekkert baulað á Efimovu, alla vega miðað við í fyrrakvöld. Jæja, nú er þetta að hefjast. Áfram Hrafnhildur!

02.10 - Hrafnhildur gengur inn á bakkann! Þetta er að bresta á.

02.07 - Annað fáránlega spennandi úrslitasund. Kyle Chalmers vann 100 metra skriðsund karla á nýju heimsmeti unglinga, en hann er 18 ára gamall. Hann var sjöundi eftir 50 metra!

02.05 - Rétt nokkrar mínútur í að Hrafnhildur syndi! Úrslit í 100 metra skriðsundi karla fyrst.

02.00 - Úff! Fáránlega spennandi úrslitasund í 200 metra flugsundi kvenna að baki. Hin spænska Mireia Belmonte fellir tár eftir að hafa unnið Madeline Groves frá Ástralíu með 3 sekúndubrota mun. Groves var með góða forystu fyrstu 50 metrana en það dugar nú aldrei.

01.55 - „Ég hefði getað synt hraðar, en það er líka gott að eiga eitthvað inni. Ekki það að ég hafi verið að gera það viljandi, eins og sumir gera, en ég á þá meiri orku inni í kvöld. Ég hefði getað farið hraðar og það kemur vonandi í kvöld,“ sagði Hrafnhildur meðal annars eftir undanrásirnar í dag. Það vonum við öll!

01.50 - Hrafnhildur syndir á milli þeirra Jennu Laukkanen frá Finnlandi og Kierru Smith frá Kanada. Smith synti hraðar í undanrásunum en Hrafnhildur, en þó 73 sekúndubrotum hægar en Íslandsmet Hrafnhildar. Laukkanen synti hægar en hinar tvær, enda er henni stillt upp á 1. braut.

01.50 - Síðustu mínútur hérna hafa farið í að hlýða á þjóðsöng Kasakstans, og núna er verið að mynda Balandin, sigurvegara 200 metra bringusunds karla, í bak og fyrir.

01.40 - Engin íslensk sundkona hafði komist í undanúrslit á Ólympíuleikum áður en Hrafnhildur og Eygló Ósk Gústafsdóttir afrekuðu það hér í Ríó. Örn Arnarson var eini Íslendingurinn sem synt hafði úrslitasund, áður en Hrafnhildur gerði það. Enginn Íslendingur hefur hins vegar synt til úrslita tvisvar sinnum á Ólympíuleikum.

01.39 - Undanrásir í 200 metra baksundi karla voru að klárast. Næst fáum við úrslitin í 200 metra flugsundi kvenna og svo 100 metra skriðsundi karla, og svo er komið að Hrafnhildi.

01.30 - Hrafnhildur syndir á braut 2 í fyrri undanúrslitariðlinum. Hún er í riðli með Juliu Efimovu frá Rússlandi, sem búast má við að verði baulað á úr stúkunni eins og í fyrrinótt þegar hún vann silfur í 100 metra bringusundinu. Heimsmethafinn Rikke Møller Pedersen frá Danmörku er í seinni riðlinum, líkt og Lilly King, ólympíumeistari í 100 metra sundinu, og fyrrnefnd Shi Jinglin.

01.20 - Hrafnhildur hefur oft sagt að 200 metra bringusund sé hennar sterkasta hlið. Þó fékk hún brons í þeirri grein en silfur í 50 og 100 metra bringusundi á EM í 50 metra laug í maí. Á HM í 50 metra laug í fyrra fór Hrafnhildur í sérstakan bráðabana við Shi Jinglin frá Kína um sæti í úrslitum 200 metra bringusundsins, en tapaði og lenti því í 9. sæti. Hún lenti hins vegar í 6. sæti í 100 metra bringusundinu á því móti.

01.15 - Þetta úrslitakvöld hófst á úrslitum í 200 metra bringusundi karla, þar sem Dmitriy Balandin frá Kasakstan fagnaði sigri. Mér skilst að þetta séu fyrstu verðlaun Kasaka í sundi á Ólympíuleikum. Til hamingju með það! Nú eru undanúrslit í 100 metra skriðsundi kvenna í gangi, og því næst eru undanúrslit í 200 metra baksundi karla. Þá fáum við úrslit í 200 metra flugsundi kvenna og 100 metra skriðsundi karla, áður en Hrafnhildur mætir á svið.

01.10 - Hrafnhildur synti án vandræða upp úr undanrásunum í dag, varð fjórða í sínum riðli og örugg um að komast í úrslit jafnvel áður en að fjórði og síðasti riðillinn synti. Hún sagðist telja sig eiga meira inni fyrir kvöldið í kvöld og það er óskandi.

01.00 - Gott kvöld kæru lesendur og verið velkomnir í beina textalýsingu úr Ólympíusundhöllinni í Ríó. Hrafnhildur Lúthersdóttir syndir í fyrri undanúrslitariðlinum í 200 metra bringusundi og er áætlað að það verði nákvæmlega kl. 2.11. Bætir hún enn einni blaðsíðunni við sögubækurnar í kvöld?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert